Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fengu útrunnið nammi - öskudagur endurtekinn

15.02.2016 - 15:33
Mynd með færslu
Börn í grímubúningum syngja. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd: RÚV
Krakkar sem mættu á bæjarskrifstofu Seyðisfjarðar í þeirri von að fá sætindi í skiptum fyrir söng keyptu köttinn í sekknum. Því bæjarfélagið hafði fest kaup á nammi sem var útrunnið. Bæjarfélagið ætlar að bæta börnunum þetta upp með því að endurtaka öskudagsgleðina á miðvikudag. Börnunum gefst þar tækifæri á að koma og syngja fyrir nýju sælgæti - bærinn setur það ekki sem skilyrði að þau verði í búningum.

Þetta kemur fram á vef Seyðisfjarðar. 

Vefur Austurfréttar reyndi að leita skýringa hjá framkvæmdastjóra heildsölufyrirtæksins Íslenskrar dreifingar sem seldi bænum þetta gamla gotterí.  „Það er búið að ræða þetta, það þarf ekki að ræða þetta neitt frekar,“ sagði framkvæmdastjóri heildsölunnar við vef Austurfréttar.

Austurfrétt greinir jafnframt frá því að málið sé komið á borð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur - rannsóknin sé á frumstigi en að leitað verði eftir skýringum frá fyrirtækinu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV