Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fengu kennslustund um Sinaloa-glæpahringinn

15.11.2018 - 23:17
Mynd með færslu
 Mynd: AP - US Law Enforcement
Kviðdómendur í máli Joaquín Guzmán, oftast kallaður El Chapo eða „Sá stutti“, fengu kennslustund um hvernig Sinaloa-glæpahringurinn starfar frá fyrrverandi endurskoðanda samtakanna - Jesus Zambada García. Zambada staðfesti í skýrslutöku sinni að Guzman hefði verið einn af leiðtogum samtakanna og lýsti því í ítarlegu máli hvernig samtökin vinna.

Réttarhöldin yfir Guzmán hófust í Brooklyn í vikunni en öryggisgæsla í kringum dómshúsið hefur verið hert til muna.  Vopnaðir verðir fylgja kviðdómendum við hvert fótmál og nöfnum þeirra er haldið leyndum af ótta við hefndaraðgerðir. Einn úr hópnum baðst lausnar strax á fyrsta degi réttarhaldanna vegna kvíða. 

Þegar Jeffrey Lichtman, aðalverjandi Guzmán, flutti málsvörn skjólstæðings síns kom meðal annars fram að Guzmán hefði vonast til að gerð yrði kvikmynd eða skrifuð bók eftir viðtalinu sem bandaríski leikarinn Sean Penn tók við hann fyrir Rolling Stone.  Fundur Penn og Guzmán er talinn hafa átt stóran þátt í því að mexíkóskum yfirvöldum tókst að handsama fíkniefnabaróninn. Verjandi Guzmán sagði hann hafa verið meðvitaða um áhættuna sem hann hefði tekið þegar hann féllst á að hitta leikarann. Hann væri einfaldlega hrifinn af sviðsljósinu. „Af hverju hefði hann annars gert eitthvað svona klikkað?“ sagði Lichtman.

epa05094928 (FILE) A composite image of three file photos showing (L-R) alleged Mexican drug lord Joaquin 'El Chapo' Guzman in Los Mochis, Mexico, 08 January 2016; US actor Sean Penn in London, Britain, 16 February 2015; and Mexican actress Kate
Guzman, Penn og Kate del Castillo sem leiddi þá saman. Mynd: EPA - EPA FILES
Guzmán ásamt Sean Penn og leikkonunni Kate del Castillo sem kom fundi leikarans og glæpaforingjans í kring.

Það vakti síðan athygli fjölmiðla að saksóknarar í málinu skyldu leiða fyrir dóminn í gær eitt helsta vitni sitt - Jesus Zambada García. Zambada staðfesti að bróðir sinn, Ismael Zambada, og Guzmán væru höfuðpaurar samtakanna. Á vef Guardian kemur fram að Ismael stýri samtökunum núna og hugsanlega hafi hann lagt á ráðin um að svíkja Guzmán í hendur yfirvalda.  Zambada var hins vegar handtekinn fyrir tíu árum og játaði sök í umfangsmiklu fíkniefnamáli. 

Zambada hóf vitnaleiðsluna á því að útskýra hversu nánir hann og Guzmán hefðu verið. Hann hefði til að mynda útvegað Guzmán þyrlu eftir flótta úr fangelsi árið 2001 til að hann gæti flúið frá herliði sem var við það að ná honum. Hann var spurður hvernig hann vissi það sem hann vissi og svaraði: „Af því að ég var í þessum glæpasamtökum og var háttsettur.“ Guzmán væri einn fjögurra leiðtoga Sinaloa-samtakanna en hann sjálfur einn af æðstu undirmönnunum. Siðan kæmu allskonar skósveinar, meðal annars svokallaðir „sicarios“ sem hefðu það verkefni að koma fólki fyrir kattarnef. Í umfjöllun Guardian kemur fram að Guzmán hafi fyrst virkað pirraður á meðan vitnisburði Zambada stóð en síðan hallað sér aftur í sæti sínu og hlustað.

New York Times rekur síðan hvernig Zambada varpaði ljósi á  fíkniefnainnflutning Sinaloa-samtakanna. Hann hafi verið hálfgerður leiðsögumaður um þessa undirheima og á það er bent að bandarískum yfirvöldum hafi aldrei tekist að varpa svona nákvæmu ljósi á starfsemi skipulagðra glæpasamtaka, ekki hjá mafíunni eða Al Kaída.  Zambada sagði að kókaínið kæmi frá Kólumbíu.  Þaðan væri það flutt með hraðbátum til Cancun,  flutt yfir í vörubíla og þeim síðan ekið að vöruhúsi í Mexíkó-borg. Síðan væri efninu smyglað til landamærabæja eins og Ciudad Juárez og Agua Prieta og þaðan yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Og það skipti máli hvert efnin fóru upp á gróða. Fyrir níu milljónir dollara var hægt að kaupa fimmtán tonn af kókaíni. Þegar efnið væri sett í sölu á götum Los Angeles -borgar væri hægt að græða 39 milljónir, 48 milljónir í Chicago og 78 milljónir í New York.

Mynd með færslu
 Mynd:
Emma Coronel, eiginkona Guzmán, kemur til réttarhaldanna. Dómari hafnaði beiðni Guzmán sem vildi fá að faðma hana við upphaf réttarhaldanna.

Verjendur Guzmán sökuðu Zambada um að vera sjálfur höfuðpaur Sinaloa-samtakanna og það væru samantekin ráð hjá honum og spilltum embættismönnum í Mexíkó og bandarískum fíkniefnalögreglumönnum að koma Guzmán á bak við lás og slá. Saksóknarar brugðust ókvæða við þessum yfirlýsingum, samkvæmt New York Times, og kröfðust að þessum ummælum yrði vísað frá dómi. Dómari hafnaði þeirri kröfu en bað kviðdóminn um að horfa fram hjá þeim. 

Zambada kom aftur fyrir dóminn í dag og þar sagði hann Guzmán hafa skipað sér að múta hershöfðingja með peningum og faðmlagi. Kviðdómendur fengu jafnframt að sjá myndskeið af undirgöngum frá Mexíkó til bandarísku landamæraborgarinnar Douglas í Arizona sem talið er að hafi verið notuð til að smygla fíkniefnum.

Verjendur Guzmán hafa gert alvarlegar athugasemdir við vitnalista ákæruvaldsins. Þeir segja lykilvitnin ótrúverðug og  nefna sem dæmi fíkniefnasalann fyrrverandi Miguel Angel Martínez sem hafi notað fjögur grömm af kókaíni á dag. Þá væri ekki mikið að marka annað vitni, Alex Cifuentes, sem hefði eitt sinn unnið fyrir Pablo Escobar. „Þessi vitni eiga eftir að fá hárin til að rísa,“ sagði verjandi Guzmáns. Búist er við að réttarhöldin geti staðið í allt að fjóra mánuði.