Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fengu hver og einn hundrað þúsund króna sekt

13.08.2018 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Þrír franskir ferðamenn mættu á lögreglustöðina á Egilsstöðum í morgun og greiddu hver og einn 100 þúsund krónur í sekt. Þeir ollu skemmdum á náttúru með utanvegaakstri við Þríhyrningsá á leiðinni frá Möðrudal inn í Vatnajökulsþjóðgarð um helgina. Frakkarnir þrír voru hver og einn undir stýri á Dacia Duster-jeppa í samfloti á ferð sinni um hálendið.

Mennirnir fóru út af veginum þegar þeir komu að biluðum bíl á vaðinu yfir Þríhyrningsá. Þeir unnu talsverðar skemmdir á gróðri og sandmel. Fram kom í fréttum RÚV í gær að líklegt er talið að sumar skemmdirnar séu óafturkræfar.

Sektarheimildir vegna utanvegaaksturs eru á bilinu 50 til 500 þúsund krónur. Hefðu mennirnir ekki greitt sektina á lögreglustöðinni í morgun hefðu þeir átt yfir höfði sér að yfirvöld sendu sektina til innheimtu í Frakklandi.

Einn mannanna mun hafa fundið að því að engar merkingar væru um að utanvegaakstur væri bannaður og því verið ósáttur við sektargreiðsluna. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV