Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fengu alþjóðleg verðlaun í Barcelona

Einnota mynd
 Mynd: Aðsend mynd

Fengu alþjóðleg verðlaun í Barcelona

30.09.2018 - 21:21

Höfundar

Teiknistofan Landslag hlaut alþjóðleg verðlaun í landslagsarkitektúr fyrir hönnun á tröppustíg á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Verðlaunin, The Rosa Barba Prize, voru veitt á tíunda landslagsarkitektúrtvíæringnum í Barcelona á föstudag. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt kynnti verkefnið á ráðstefnunni og veitti ásamt Jóni Rafnari Benjamínssyni verðlaununum viðtöku; viðurkenningu og 15 þúsund evrur í peningaverðlaun.

Saxhóll er 45 metra hár gígur við þjóðveginn yst á Snæfellsnesi. Þráinn segir að af því að gígurinn er svo nærri þjóðveginum hafi verið kjörið að skapa þar góða aðstöðu. Leiðin upp að Saxhól hafi verið orðin óþægileg og hættuleg og með því að gera hana örugga hafi í leiðinni verið hægt að gera gíginn greiðfæran til uppgöngu. Bæði sé þarna hægt að horfa ofan í lítinn gíg og njóta útsýnisins til Snæfellsjökuls og nágrennis. 

Einnota mynd
 Mynd: Aðsend mynd

Þráinn segir að níu verkefni víðsvegar að úr heiminum hafi verið tilnefnd. Tvö verkefni frá Kína, auk verkefna frá Frakklandi, Grikklandi, Íslandi, Ísrael, Ítalíu, Mexíkó og Sviss. Þráinn segir að öll verkefnin hafi verið stærri en þeirra.

Tilnefningin í Barcelóna sé án efa mesta viðurkenning sem íslenskir landslagsarkitektar hafa hlotið. „Hún er mjög mikilvæg fyrir okkur og fagið okkar og þá sem eru að standa í framkvæmdum á ferðamannastöðum, hvort sem það eru opinberar stofnanir eða einkaaðilar, vegna þess að þetta er stór viðurkenning. Þarna er vandað fólk í dómnefnd og mörg verkefni send inn.“

Þráinn segir að Teiknistofan Landslag hafi áður verið tilefnd til verðlaunanna, þá fyrir snjóflóðavarnir á Siglufirði og fengið sérstaka viðurkenningu fyrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd

Þráinn segir að verðlaunin séu mikil viðurkenning fyrir íslenska landslagsarkitekta  og að þau ættu að hvetja hönnuða og framkvæmdaraðila til faglegra og vandaðra vinnubragða við hönnun og uppbyggingu á ferðamannastöðum á Íslandi. „Eftir að ferðamannastraumurinn fór að aukast, og í raun fjórfaldast frá 2010, þýðir það að hingað til höfum við verið að slökkva elda á þessum stöðum til að verja gulleggið sem er náttúran. Við viljum verja náttúruna, öryggi ferðamanna og hámarka upplifun hans, þannig að landið verði áfram gott til afspurnar.“

Verkið er unnið fyrir Umhverfisstofnun og verktakafyrirtækið Kvistfell annaðist framkvæmd tröppustígsins.