Femínismi ekki bundinn við vinstri vænginn

Mynd: RÚV / RÚV

Femínismi ekki bundinn við vinstri vænginn

23.06.2015 - 12:08

Höfundar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yfirmaður UN Women í Tyrklandi segir að femínismi sé ekki eitthvað eitt kenningakerfi sem bundið er við vinstri vænginn í pólitík heldur sjónarhorn á tilveruna.

Hún segir að femínistar geti verið alls konar með ólíkan bakgrunn, það sem sameinar þá er að sjá að konur njóta ekki jafnréttis á við karla og hafa löngun til þess að breyta því.

Hún mætti í viðtal í Síðdegisútvarpinu á kvenréttindadaginn 19. júní ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur forstöðumanni hjá Samtökum atvinnulífsins. Báðar eru þær fyrrverandi þingmenn og ráðherrar og hafa mikla reynslu úr íslenskum stjórnmálum.

Ingibjörg Sólrún settist í borgarstjórn Reykjavíkur 28 ára gömul þegar Davíð Oddsson var borgarstjóri og „alpha-male“ að hennar sögn sem stjórnaði öllu. Karlmenn voru á þeim tíma mjög ráðandi í borgarstjórn og embættismannakerfinu. „Það var erfiður og mikill slagur sem ég fór í gegnum en líka heilmikil reynsla,“ segir hún. Ingibjörg Sólrún segir að ákveðinn skammtur af egóisma sé nauðsynlegur til þess að fara í stjórnmál, berjast fyrir sjálfum sér um leið og málefnunum. „Hættan er þegar fólk er komið inn í stjórnmálin að egóið verði of uppblásið, við sjáum hér mörg dæmi um það.“

Þorgerður Katrín segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að breytast á síðustu árum, áður hafi fundist þar miklir fordómar gagnvart femínisma og fyrirvarar á skoðunum Sjálfstæðiskvenna gagnvart femínisma. „Sjálfstæðisflokkurinn var lengi vel einnar konu flokkur,“ sagði Þorgerður Katrín og vitnaði í flokkssystur sína sem sagði að þegar sú kona væri ekki „nægilega hrein mey væri næsta tekin.“ Þorgerður Katrín sagði að þetta væri sem betur fer að breytast. „Það má til dæmis aldrei gerast aftur að það sé bara ein kona ráðherra úr flokknum og fimm karlar. Það verður að vera helmingaskipting.“