Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Femínískt frelsi blómstrar í vísindaskáldskap

Mynd: Wiki Commons / Wikipedia

Femínískt frelsi blómstrar í vísindaskáldskap

22.07.2018 - 12:35

Höfundar

Nanna Hlín Halldórsdóttir segir frá verkum Octavíu Butler og hvernig vísindaskáldsögur hennar sýndu fram á skapandi krafta miðilsins og hvernig hann færði lesendum aðra heima lausa undan kúgun feðraveldis, heimsvaldsstefnu, kynþáttafordóma eða kapítalisma.

Nanna Hlín Halldórsdóttir skrifar:

Vísindaskáldskapur og fantasíur eru oft á tíðum ekki tekinn jafn alvarlega og það sem kallað er fagurbókmenntir. Talað er um formúlukenndan skáldsskap sem eigi það til að verða endurtekningunni að bráð. Einhvers staðar heyrði ég að Margret Atwood – sem er frábær fantasíu-og vísindaskáldskapshöfundur – hafi farið að kalla verk sín speculative fiction; spá-skáldskap eða tilgátubókmenntir til þess að vera tekin alvarlega. Enda er það stórfurðulegt að höfundar á borð við Úrsúlu Le Guin og Octavíu Butler séu ekki þegar komnar í guðatölu tuttugustu aldar-bókmennta. Báðar voru þær höfundar vísindaskáldsagna sem sýndu fram á skapandi krafta miðilsins og hvernig hann færir okkur aðra heima lausa undan kúgun feðraveldis, heimsvaldsstefnu, kynþáttafordóma eða kapítalisma. 

Feimið barn finnur sér vettvang

Af þessum tveimur er Octavia Butler minna þekkt en hún lést árið 2006 aðeins fimmtíu og átta ára að aldri. Octavía var svört kona í Bandaríkjunum og fann ung að aldri fyrir því valdleysi og þeirri kúgun sem fylgdi þeirri stöðu. Átti sú reynsla eftir að hafa mikil áhrif á skáldskap hennar. Hún lýsti sjálfri sér sem feimnu barni sem gekk illa félagslega og fann sinn stað á bókasafninu við lestur vísindaskáldskaps. Eftir að Octavía fór sjálf að skrifa gerði hún sér smám saman grein fyrir því að vísindaskáldskapur þyrfti að breytast. Hún þyrfti að skrifa sjálfa sig inn í sögurnar og að skapa pláss fyrir margvíslegar gerðir af sögupersónum, af öllum mögulegu kynjum, kynþáttum og auðvitað frá öllum mögulegum plánetum. Sjálf taldi hún vísindaskáldskap vera þann miðil sem byði upp á hvað mesta frelsi, þetta væri miðill möguleikana og það nýtti Octavía sér til hins ýtrasta. 

Erfið saga um ofbeldi

Þær bækur sem ég hef verið að lesa eru annars vegar bókin Kindred eða Skyldleiki og hins vegar þríleikurinn Xenogenesis sem er líka kallaður Lilith's Brood – sem gæti útleggst sem ungahópur Lilith. Stundum er talað um að bækur Octavíu séu niðurdrepandi eða drungalegar. Kindred fjallar um virkilega erfiðar aðstæður svartra þræla á bómullarplantekru á nítjándu öld frá sjónarhorni tuttugustu aldar konu sem lendir í furðlegu tímaflakki til forfeðra sinna. Dana er svört kona og því er litið á hana sem þræl  á nítjándu öldinni og þarf hún að læra að haga sér sem slík til þess að hreinlega halda lífi. Bæði hún og þeir þrælar sem hún bindst böndum verða fyrir margvíslegu, hræðilegu ofbeldi, barsmíðum og sífelldu kynferðisofbeldi. 
Það sem mér þótti merkilegt við lestur bókarinnar var að finna hve vel ég dvaldi í þessari erfiðu sögu og hversu áfjáð ég var að halda lestrinum áfram þótt efniviðurinn væri átakanlegur. Öll þau blæbrigði sem finna má í lífinu er vel komið til skila: Flóknum og oft mótsagnakenndum tilfinningum, síbreytilegri líkamslíðan og samskiptum fólks á milli sem geta breyst frá einni mínútu til annarrar. Síðast en ekki síst þeirri stemningu sem myndast getur í hópum eða rýmum við nærveru eða fjarveru fólks, við sterka eða veika lykt, við sjónrænum áhrifum og svo ótal öðrum þáttum. Ekki er dregið undan óréttlæti þrælakerfisins eða hve erfitt líf þrælana er. Á sama tíma er reynt að varpa ljósi á hversdagslegar aðstæður fólks og hvernig að algert meðvitundarleysi hvítra um forréttindastöðu sína annars vegar og upplifanir þrælanna hins vegar, viðheldur þessi afar bratta og lóðrétta stigveldiskerfi, þar sem ein manneskja hefur öll völdin og aðrar eru með öllu valdlausar. 

Snúið upp á formið með framandi verum

Stigveldi er einmitt aðalþema Xenogenesis bókanna um Lilith og niðja hennar en í stað tímaflakks erum við hér lent í hreinum vísindaskáldskap þar geimverur að nafni Óankali koma til jarðarinnar í kjölfar þess að kjarnorkustyrjöld hefur þurrkað út nánast allt líf á jörðinni. Það jafnast ekkert á við lýsingarnar á þessum gemverum að mínu mati. Það er eins og Octavía hafi náð að útmá öllum fyrirframgefnum hugmyndum um geimverur; að þær séu grænar eða slímugar, með stór augu, sjálfslýsandi eða hvað það er. Hún eyðir einnig miklu söguplássi í lýsingar á hve erfitt það er fyrir mannfólkið að venjast svo afskaplega framandi útliti, það finnur hjá sér knýjandi þörf á að flýja vettvang eða hreinlega lognast út af um leið og það sér Óankalana. Ég kann ekki að gera þessum geimverum góð skil hér, til þess þarf að lesa textann en í stuttu máli þekja snákslegir armar allan líkama þeirra og með þessum „snákum“ skynja þau heiminn, þau hafa semsagt enginn augu. Skynjun Óankalanna er mun meiri og dýpri heldur en mannfólksins en þetta atriði er eitthvað það áhugaverðasta við bókaflokkinn: Hvernig Oktavía nýtir sér líffræði og lífvísindi til þess að lýsa því hvernig að þessar framandlegu verur skynja hverja frumu líkamans á margvíðan hátt. Hvernig fruman lyktar öðruvísi, smakkast og ber öðruvísi fyrir sjónum. Þess að auki hafa þau mikla burði til þess að breyta virkni lífræna efna. Allur heimur Óankali er lífrænn og í stöðugri genabreytingu; geimskipin sem þau hafa siglt vetrarbrautina á eru lífverur og eru í raun hluti af Óankali verunum en skipin búa til mat, breyta veggjum, opna dyr eða mynda svefnfleti eftir þörfum Óankalana. 

Stigveldishneigðin afmáð með aðstoð úr geimnum

Allar hugmyndirnar um gen og virkni þeirra hafa eflaust verið frekar nýjar af nálinni um miðbik níunda áratugar síðustu aldar þegar Octavía skrifar bækurnar. Hún gefur lýsingunum á líffræðinni allt að því nördalega mikið pláss sem kannski er ekki skrýtið þar sem um aðaleinkenni Óankali-geimveranna er að ræða, þær vilja ekki bara leita að nýju lífi í geiminum heldur einnig renna saman við það á þann hátt að það gagnist báðum tegundum.    Sem beinir sjónum okkar að stigveldinu. Miðað við þann gena-lestur sem Óankölunum er í blóð borið sjá þau að stigveldishugsun er eðlislæg mannfólkinu og því er það í raun óhjákvæmilegt að þau tortími sér eins og hefur þegar gerst á þessum tímapunkti í sögunni. Óankalarnir bjarga síðustu vesalings manneskjunum frá því að deyja kjarnorkudauða og ætla ennfremur að bjarga þeim með því að  eignast börn með þeim og búa þannig til nýja tegund lausa við þessa stigveldishneigð. Mannfólkið hefur ekki um þetta neitt val, Óankalarnir hafa þegar ákveðið hvernig skal standa að hlutum. 

Octavía skýtur föstum skotum að manneskjunni sem tegund með því að setja stigveldi fram sem eðlislægan eiginlega. Fordæmir hún þannig ráðandi stöðu þess sem samfélagsmynsturs en virðist einnig frekar vonlaus um framtíð mankynsins. En ekki virðist henni heldur hugnast hvernig hinir rólyndis Óankalar með sinn mikla gena-skilning taka frelsið af manneskjunum vilji þær fjölga sér án þeirra. Lýsingarnar á mannfólkinu, Óankölunum og síðan hinum nýju blönduðu niðjum Lilith eru stórfenglegar. Kannski virðist þessi saga ekki vera mikið efni í spennumynd en lýsingarnar eru svo ríkar að það ljúkast upp fyrir manni  litríkur, ímyndaður heimur á borð við hina epísku þáttaröð Game of Thrones. 

Hugsanlegt að vinsældirnar muni aukast

Síðustu ár hefur áhugi á femínískum útópíum og dystópíum stóraukist og verk Octavíu hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Aktívistar og listamenn hafa þá sérstaklega heillast að verkum hennar. Til dæmis kom út afar áhugaverð bók fyrir nokkrum árum að nafni Octavia's Brood eða Ungahópur Octavíu en þar má finna safn vísindaskáldskaps í anda Octavíu Butler þar sem félagslegt réttlæti er haft í hávegum og ímyndaðir heimar án kynjakerfa, án heimsvaldsstefnu, án kynþáttarhaturs, og án stigveldis færðir lesendum. Þannig eru verk Octavíu fjarri því að gleymast í dag og jafnvel líklegt að vinsældir bóka hennar eigi enn eftir að aukast. Vonandi eiga þær eftir að hvetja til meiri skilnings á þeim síbreytilega og jafnframt skapandi margbreytileika sem þarf að vera til grundvallar félagslegur réttlæti.

Pistillinn var fluttur í Tengivagninum á Rás 1 þann 18. júlí 2018.