Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fellst ekki á miska umsækjenda

25.10.2018 - 22:27
Mynd: RÚV / RÚV
Dómsmálaráðherra ætlar ekki að biðja þá afsökunar sem vikið var af lista hæfnisnefndar um umsækjendur um stöður dómara við Landsrétt. Íslenska rikið var í dag dæmt til að greiða einum umsækjanda miska- og skaðabætur, rúmar fimm milljónir. Þá var ríkið dæmt bótaskylt í máli annars umsækjanda.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið í dag til að greiða Jóni Höskuldssyni 4 milljónir króna í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að ganga fram hjá honum við skipun dómara í Landsrétt. Íslenska ríkið var jafnframt dæmt bótaskylt í máli Eiríks Jónssonar og má búast við að hann höfði skaðabótamál. Rætt var að dómsmálaráðherra í Kastljósi í kvöld. 

Sigríður sagði að hvað sem hún hefði gert hefði hún alltaf orðið skaðabótaskyld, enda hefði þingið ekki samþykkt lista hæfnisnefndarinnar. Hún ætlar ekki að biðja það fólk afsökunar sem hún vék af lista þeirra hæfustu. „Ég fellst nú ekki á það að þetta ágæta fólk hafi orðið fyrir einhverjum miska vegna þess að ég hef sagt það og held því fram enn þá að þetta fólk allt saman var jafn hæft og vel hæft til að gegna störfum landsréttardómara.“

Gerðir þú einhver mistök í þessu máli? „Nei, á þeim tíma, þegar ég stóð frammi fyrir málinu þá get ekki fallist á að mér hafi verið unnt að haga þessu með öðrum hætti.“ 

Og núna þegar dómur er fallinn, lítur þú sömu augum á málið? „Nei, ég mun að sjálfsögðu haga meðferð sambærilegra mála með öðrum hætti og með ítarlegri rannsóknum ef til þess kemur að ég þurfi að víkja frá tillögu hæfnisnefndar um dómaraembætti í framtíðinni.“

Dómsmálaráðherra ræddi einnig um færslu sína á Facebook í gær um kvennafrídaginn. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.