Fellibylur lagði Beira í rúst

18.03.2019 - 08:43
Erlent · Afríka · Mósambík · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Níu tíundu hlutar borgarinnar Beira í Mósambík eru í rúst eftir að fellibylurinn Idai fór þar yfir í síðustu viku, að sögn hjálparstarfsmanna alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Eyðileggingin er nær algjör og ástandið óhugnanlegt, segja þeir í yfirlýsingu.

Flest hverfi borgarinnar eru umflotin vatni, raflínur slitnar og símsambandslaust. Vegir eru ónýtir. Fréttir hafa borist af því að ástandið í nágrenni Beira sé jafnvel enn verra en í borginni sjálfri. Stífla hefur brostið og eyðilagt síðasta veginn sem fær var til borgarinnar.

Vitað er að 138 fórust í óveðrinu í Mósambík og nágrannaríkinu Simbabve. Einnig hefur verið greint frá manntjóni í Malaví. Margra er saknað. Spáð er meira vatnsveðri á þessum slóðum á næstunni.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi