Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Félagsvæðing fjármálakerfisins lykilatriði“

Mynd með færslu
Vésteinn Valgarðsson, varaformaður Alþýðufylkingarinnar Mynd: Alþýðufylkingin
Mynd með færslu
formaður Alþýðufylkingarinnar Mynd: Alþýðufylkingin
„Það er nánast hægt að draga stefnu okkar saman í einu orði sem er félagsvæðing," segir Vésteinn Valgarðsson, varaformaður Alþýðufylkingarinnar. Flokkurinn býður fram í komandi Alþingiskosningum með Þorvald Þorvaldsson, formann, í broddi fylkingar.

Vésteinn segir félagsvæðingu vera andstæðuna við markaðsvæðingu. „Það þýðir að við viljum að innviðir landsins verði reknir félagslega en ekki í gróðaskyni." Hann segir félagsvæðingu fjármálakerfinsins algjört lykilatriði í stefnu flokksins. „Núna sogar fjármálakerfið til sín hundruð milljarða á ári í vexti. Þá peninga viljum við spara og nota í velferð," segir Vésteinn.

Hann segir að flokksmenn Alþýðufylkingarinnar vilji helst að ríkið reki banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði. „Við viljum að fjármálastarfsemi í gróðaskyni, bæði bankar, tryggingafélög og lífeyrissjóðir verði helst leyst upp og yfirtekin af ríkinu." 

Vésteinn segir það stefnu flokksins að ríkið taki að sér lífeyrisgreiðslur, fjármála- og tryggingaþjónustu. „Við viljum að ríkið taki að sér að veita fólki fjármálaþjónustu og tryggingar og sjái öllum fyrir mannsæmandi lífeyri," segir hann. 

Hann segir að ekki sé komin nákvæm útfærsla á hvernig þetta mun fara fram, það séu margir óvissuþættir í veginum. Þó segir hann stefnu flokksins að afnema skyldugreiðslur inn í lífeyrissjóði og að afnema vaxtagreiðslur af húsnæðislánum. „Ríkið ætti að taka þetta til sín, þannig það myndi spara þennan gífurlega kostnað sem fer núna í gróða bankanna," segir Vésteinn.

Stefnu flokksins í heild sinni má lesa hér.
 

 

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV