Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Félagsleg heilbrigðiskerfi komi best út

05.01.2015 - 01:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Heilbrigðisþjónusta verður brotakenndari og skilar minni árangri þegar einkarekstur breiðist út í félagslegu heilbrigðiskerfi eins og er hér á landi. Þetta er niðurstaða úttektar á rekstri heilbrigðisþjónustu í Evrópu og vestan hafs.

Mikil samstaða er meðal Íslendinga um að hið opinbera eigi fyrst og fremst að fjármagna heilbrigðisþjónustuna. Þetta hefur komið fram í könnunum hér á landi. Meiri ágreiningur hefur hins vegar verið um hvernig eigi að reka þjónustuna. Íslenska heilbrigðiskerfið hefur, á undanförnum árum, færst frá því að vera félagslegt heilbrigðiskerfi í opinberum rekstri, í kerfi sem er einkavætt að hluta.  

Rúnar Vilhjálmsson prófessor fór yfir fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum og Evrópu um árangur ólíks reksturs heilbrigðisþjónustu. Niðurstöðurnar sýna að þegar mat er lagt á aðgengi að þjónustu þá koma félagsleg kerfi, eins og hér hefur verið, best út. Blönduð kerfi, eins og eru í Vestur-Evrópu, næst best en lakast er aðgengi að þjónustunni í kerfum sem eru í einkarekstri. Kostnaður er lægstur í félagslega kerfinu og lýðheilsa best. „Þannig að eftir því sem bæði fjármögnun og rekstur fer frá því opinbera og til einkaaðila þá verður stýring eða stjórnun þjónustnnar eða kerfisins erfiðari,“ segir Rúnar. 

Talið er að upptaka nýjunga gangi hraðar í einkareknum heilbrigðiskerfum. Það er einn helsti kostur þeirra og einnig öðlast ákveðnir hópar sjúklinga aukið val og þeir sem fá þjónustuna eru ánægðir.  Þegar meta á árangur heilbrigðiskerfa verður að skoða heildaráhrifin. „Þá sjáum við að þegar við innleiðum einkarekstur í félagslegum kerfum þá verður þjónustan oft brotakenndari. Hún fer á margra hendur og þetta eru oft aðilar sem eru í ófullnægjandi samskiptum á milli sín og jafnvel í samkeppni um skjólstæðinga þjónustunnar. Þannig að þó að þeir sem noti þjónustu einstakra starfsmanna séu kannski ágætlega ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá, þá getur verið aað kerfið í heild sé að verða brotakenndara og árangur þess sé að minnka á sama tíma.“