Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fékk tvenn laun frá sveitarfélaginu

12.08.2016 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Fyrrverandi skólastjóri við Þingeyjarskóla fékk með starfslokasamningi full laun í 12 mánuði en hún var stuttu síðar ráðin í stöðu verkefnisstjóra við skólann. Samkvæmt samningnum gat hún ráðið sig í annað starf hjá sveitarfélaginu án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum á starfslokatímibili. Hún þáði því tvenn laun frá Þingeyjarsveit í eitt ár.

Sveitarfélagið sameinaði í lok árs 2014 tvær starfsstöðvar Þingeyjarskóla og auglýsti eftir nýjum skólastjóra. Var þá gerður starfslokasamningur við fráfarandi skólastjóra, sem stuttu síðar var ráðin í stöðu verkefnastjóra við skólann. Það starf var ekki auglýst.

Ásta Svavarsdóttir, fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi í Þingeyjarsveit, óskaði eftir því á síðasta ári að fá að sjá samninginn, en var synjað. Ásta kærði þá ákvörðun.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði í vikunni að Þingeyjarsveit bæri að afhenda starfslokasamninginn. Sveitarfélagið undi þeirri ákvörðun og fékk Ásta samninginn afhentan í gær. Í honum kemur fram að fráfarandi skólastjóri fái full laun auk annarra greiðslna, eins og hún væri í fullu starfi, til 31. júlí 2016. Þar kemur einnig fram að henni sé heimilt að ráða sig til annarra starfa, þar með talið Þingeyjarskóla, án þess að greiðslur á starfslokatímabili skerðist. Laun vegna mögulegra starfa á starfslokatímabili kæmu því til viðbótar starfslokagreiðslum, segir í samningnum.

Ástu þykir það skrítið að það sé tekið fram að skólastjórinn haldi greiðslunum þó hún ráði sig í aðra stöðu við skólann. Það sem vekur einna helst athygli Ástu sé það að reynt hafi verið að leyna samningnum, þar sem engar upphæðir eru þar nefndar. Einnig þykir henni athyglisvert að skólastjórinn fyrrverandi haldi öllum hlunnindum, eins og t.d. bifreiðastyrk. „Að útsvarsgreiðendur greiði óekna kílómetra sem sporslu tel ég í hæsta máta óeðlilegt,“ segir Ásta á vefsíðu sinni.

Að sögn Ástu hafa skólamálin í sveitarfélaginu verið mjög umdeild og telur hún að mjög illa hafi verið staðið að sameiningu skólanna á síðasta ári.

Atli Þór Ægisson
Fréttastofa RÚV