Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fékk sér húðflúr í tilefni klifurafreks

04.08.2016 - 18:35
Það var bara spurning um að vera nógu ákveðinn, segir Sigurður Waage um það að klífa Hraundranga í Öxnadal, en hann og félagar hans tveir voru fyrstir til að afreka það fyrir réttum sextíu árum. Sigurður, sem er tæplega níræður, hélt upp á afrekið í dag með því að fá sér húðflúr.

Sigurður, sem nú býr á Hrafnistu í Reykjavík, kleif þann 5. ágúst ásamt félögum sínum þeim Finni Eyjólfssyni og Nicholas Clinch, Hraundranga í Öxnadal, en hann var lengst af talinn ókleifur þar sem hann gnæfir lóðrétt upp í loftið 1.075 metra hár. Í Morgunblaðinu fyrir 60 árum er sagt frá því að leiðin hafi sóst seint, en leiðangurinn tók fimmtán og hálfa klukkustund. Og menn hafa nú fengið sér húðflúr af minna tilefni og fékk Sigurður sér mynd af tindinum bratta á framhandlegginn.

„Hefur þetta staðið lengi til?“
„Nei, frekar stutt,“  segir Sigurður.
„Ertu með einhver önnur húðflúr eða er þetta það fyrsta?“
„Þetta er það fyrsta.“
„Og kom ekkert annað til greina en Hraundrangi?“
„Nei, þetta er eina afrekið sem ég hef unnið á ævinni sem virkilega tók á, þannig lagað,“ segir Sigurður.

Fjölnir Bragason húðflúrari segir Sigurð vera þann elsta sem hann hefur húðflúrað.
„Já þetta er aldursforsetinn held ég alveg örugglega,“ segir Fjölnir og bætir við að menn sem fái sér húðflúr á þessum aldri séu grjótharðir.

Aðrir höfðu reynt við tindinn á undan Sigurði og félögum án árangurs, en Sigurður segist hafa verið viss um að hægt væri að komast upp.

„ Já, já. Það var bara að vera nógu ákveðinn og gera þetta. Skátarnir voru einhvern tímann að tala um að klífa, en þeir reyndu ekki við hann einu sinni,“ segir Sigurður. Hann segir uppgönguna hafa verið erfiða enda dranginn mjög laus í sér.

Eins og gefur að skilja gat aðeins einn þeirra félaga verið á tindinum í einu og þurftu þeir því að skiptast á. Sigurður var í Flugbjörgunarsveitinni og stundaði fjallgöngur, en þessi leiðangur stendur upp úr. Þessari ferð gleymi hann ekki.

„Nei, það held ég ekki. Ég hef ekki gleymt henni ennþá.“

Enda er hann núna kominn með varanlega mynd á framhandlegginn af tindinum þar sem hann fór forðum.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV