Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fékk óblíðar viðtökur á Vogi

12.11.2013 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Átján ára stúlka, sem fór í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi í gær, fékk ósmekklegar athugasemdir frá hópi karla sem þar sátu í anddyrinu. Yfirlæknir á Vogi segir að ofbeldi í orðum eða gerðum sé alls ekki liðið í meðferð á Vogi.

Jafnaldra stúlkunnar, móðir hennar og vinkona móðurinnar fylgdu stúlkunni í innritun. Þar í anddyrinu eru sófar þannig að inngangurinn blasir við þeim sem þar sitja.

Vinkona móðurinnar segir að í gærmorgun hafi setið þar tólf karlar, ekki sjúklingar, en þeir hafi hugsanlega verið að fara í eftirmeðferð. „Allir þessir karlar stara á okkur þegar við komum þarna inn. Og svo koma svona einhver komment sem að ég heyrði ekki nákvæmlega en það var hlegið og það var einhver sem sagði: Ertu að sjá tvennuna þarna maður, og tveir fyrir einn eitthvað og þá er verið að vísa í þessar ungu stúlkur sem eru að koma þarna. Við vorum allar mjög slegnar,“ segir vinkona móðurinnar sem ekki vill láta nafns síns getið af tillitsemi við stúlkuna.

Hún sagði starfsmanni á Vogi frá þessu og benti á að hægur vandi væri að snúa sófunum frá innganginum. „Það er svo skrýtið að maður mætir alltaf einhverri vörn. Það kemur bara eitthvað svona: Hér er allir í sömu erindum. Sem mér finnst varla svaravert, maður verður bara kjaftstopp þegar maður heyrir svona.“ 

Stúlkurnar biðu úti í bíl í stað þess að vera í anddyrinu. Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi sagði við Fréttastofu í dag að hún hafi ekki heyrt af þessum orðaskiptum sem konan lýsir. En svona áreiti eða ofbeldi í orðum eða gerðum sé alls ekki liðið í meðferð á Vogi. Nú séu byggingaframkvæmdir á Vogi sem geri það að verkum að nú sé aðeins eitt sameiginlegt anddyri í stað tveggja.