Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fékk leyfi mömmu til að spila á balli

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter

Fékk leyfi mömmu til að spila á balli

16.04.2017 - 08:50

Höfundar

Aron Can, einn vinsælasti tónlistarmaður landsins, þurfti leyfi móður sinnar til að spila á balli á Ísafirði um páskana. Aron er aðeins 17 ára og verður ekki 18 ára fyrr en í seinni hluta nóvember.

Aron Can spilaði ásamt Emmsjé Gauta á balli í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gærkvöld, laugardagskvöld.

Samkvæmt lögum um veitingastaði og skemmtanahald er ungmennum yngri en 18 ára óheimilt að vera á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga eftir klukkan 22 á kvöldin „ nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri.“ Því þurfti leyfi frá foreldri eða forráðamanni til að Aron gæti spilað á vínveitingastað. 

Þetta leyfi veitti móðir Arons. Emmsjé Gauti birti mynd af Aroni með leyfisbréfið á Twittersíðu sinni. Hún staðfestir að hún viti og gefi leyfi fyrir því að Aron spili á ballinu. Þá sé henni kunnugt um að Edinborgarhúsið sé með skemmtanaleyfi til 3 um nóttina þetta kvöld.

Aron Can hefur átt mjög góðu gengi að fagna síðustu misseri. Hann var tilnefndur sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars. Lagið Enginn mórall átti til að mynda miklum vinsældum að fagna síðasta sumar. Lagið var til að mynda vinsælasta lag ársins 2016 á Spotify á Íslandi. Þá hefur lagið Fullir vasar af væntanlegri plötu ÍNÓTT verið mjög vinsælt síðustu vikur.