Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fékk annað tækifæri í lífinu

17.12.2011 - 19:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Mehdi Kayvanpour, flóttamaður frá Íran fékk í dag íslenskan ríkisborgararétt. Hann segist líta svo á að hann hafi fengið annað tækifæri í lífinu.

Mál Mehdis Kayvanpour komst í hámæli í maí eftir að hann hellti yfir sig bensíni og reyndi að kveikja í sér í húsakynnum Rauða kross Íslands. Í kjölfarið var hann úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og öryggisvistun. Hann var þó ekki ákærður. Eftir sjö ára baráttu hefur Mehi öðlast dvalarrétt á Íslandi og gott betur reyndar. Hann er orðinn íslenskur ríkisborgari.

„Ég finn í fyrsta skipti til frelsins og ég er alsæll með þetta. Ég met mikils það sem íslensk stjórnvöld hafa gert og ætla að nota mér þetta tækifæri eins og ég best get,“ sagði Kayvanpour í viðtali við fréttastofu RÚV.

Mehdi hefur ekki hitt fjölskyldu sína í sjö ár. Og það fyrsta sem hann ætlar að gera nú þegar hann hefur öðlast tilskilin réttindi er að bæta úr því. Þau ætla að hittast í Tyrklandi. Hann segist vona að fjölskylda hans geti einn daginn flutt til Íslands. Honum líður eins og honum hafi verið gefið annað tæki færi í lífinu og segist hann ætla að nýta sér það í þaula. Þessi sjö ár hafi verið honum mjög erfið og óvissan tekið á taugarnar. Nú sjái hann hins vegar fram á betra líf.

„Já, og ég get ekki tjáð hvernig mér er innanbrjósts. O allt þetta á ég að þakka vinum mínum sem hafa liðsinnt mér. Og þá ekki síst Helgu Völu sem hefur staðið með mér allan tímann,“ sagði hann að lokum.