Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Febrúarsólin blindar ökumenn

17.02.2014 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Sólgleraugu á nefi ökumanns og rúðupiss í lítravís. Þetta tvennt þarf að vera fyrir hendi þegar bíl er ekið á móti lágri febrúarsól. Þá geta aðstæður í umferðinni orðið hættulegar.

Dæmi eru um banaslys hér á landi þegar ökumenn blindast af sól.  Nú er að renna upp sá tími ársins þar sem sólskinið er einna varasamast. Sólin er í augnhæð þegar umferð er hvað þyngst að morgni og  síðdegis.

Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóri Samgöngustofu, minnir á að þá sé það einkum tvennt sem bílstjórar þurfi að huga að. Sólgleraugu og hreinar bílrúður, bæði að innan og utan. „Blessuð sólin getur haft  í för með sér ákveðnar hættur. Þegar hún er lágt á lofti eins og á þessum árstíma, einkum á morgnana og síðdegis, þá er þetta gríðarlega óþægilegt og hættulegt fyrir vegfarendur, einkum ökumenn. Eins og við, sem erum á ferðinni í umferðinni, þekkjum öll þá er mjög vont þegar sólin kemur nánast í augnhæð í miðri umferð.“

Hann segir því mikilvægt að menn hafi vara á sér og geri viðeignadi ráðstafanir. En hvaða ráðstafanir eru það?

„Það kann að hljóma undarlega að eitt mikilvægasta öryggistækið undir þessum kringumstæðum eru sólgleraugu. Svo viljum við brýna fyrir mönnum að hafa rúðurnar hreinar bæði að utan sem innan.  Því miður má rekja mjög alvarleg slys, meira að segja banaslys, til þess að menn hafa blindast af sól.“