Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

FBI rannsakar tengsl NRA við Rússa

epa05931618 Firearms on display at the National Rifle Association's Annual Meetings at the Georgia World Congress Center in Atlanta, Georgia, USA, 27 April 2017. US President Donald Trump will speak at the NRA Leadership Forum on 28 April 2017.  EPA
 Mynd: EPA
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar hvort rússneskur bankastarfsmaður, nátengdur Vladimír Pútín Rússlandsforseta, hafi veitt fé í kosningasjóð Donalds Trumps í gegnum bandarísku skotvopnasamtökin NRA. Erlendir styrkir til bandarískra stjórnmálamanna eru bannaðir með lögum.

Breska dagblaðið Guardian greinir frá þessu. Þar segir að NRA hafi greitt minnst 30 milljónir dala í kosningasjóð Trumps fyrir forsetakosningarnar 2016, sem er rúmlega tvöföld sú upphæð sem samtökin greiddu í kosningasjóð Repúblikanans Mitt Romney árið 2012.

Blaðamenn vestra hafa rannsakað tengsl og fundi leiðtoga NRA með rússneskum fulltrúum mánuðum saman. Þar á meðal fund sendinefndar NRA til Moskvu árið 2015 sem nánir samverkamenn Pútíns sátu með þeim. 
Bandaríski vefmiðillinn McClatchy greindi fyrstur frá því í gær að rannsókn FBI á meintum afskiptum rússneskra stjórnvalda að forsetakosningunum 2016 beini nú sjónum sínum að tengslum NRA við Rússa. Þar er Alexander Torshin sagður bankastarfsmaðurinn sem NRA vann með. Að sögn Guardian neita fulltrúar NRA, skrifstofu sérstaks saksóknara í Rússlandsrannsókn yfirvalda og FBI að tjá sig um málið.

Torshin þessi er aðstoðarseðlabankastjóri Rússlands og fyrrverandi þingmaður þar í landi. Samkvæmt New York Times reyndi hann að koma á fundi á milli Trumps og Pútíns í maí 2016, en Jared Kushner, tengdasonur Bandaríkjaforseta, kom í veg fyrir það. Þennan sama maímánuð mættu þeir Torshin, Trump og Donald Trump yngri allir á ársfund NRA í Louisville. Þar ávarpaði Trump þingið og hlaut að lokum stuðning þess. Lögmaður Trumps yngri segir þá Torshin hafa spjallað stuttlega saman, aðallega um byssur.

Samkvæmt bandarískum lögum mega erlendir ríkisborgarar ekki greiða í kosningasjóði bandarískra stjórnmálamanna, hvorki með beinum né óbeinum hætti. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV