Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

FBI kom hingað til að rannsaka Wikileaks

30.01.2013 - 21:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Hópur bandarískra alríkislögreglumanna kom með einkaflugvél til Íslands og óskaði eftir samvinnu hérlendra yfirvalda við rannsókn á uppljóstrunarsíðunni Wikileaks. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, greindi frá þessu í Kastljósi í kvöld.

„Ég get líka upplýst það hér að fyrir nokkrum misserum síðan gerðist sá fáheyrði atburður að einkaflugvél lenti á Reykjavíkurflugvelli uppfull af 'agentum' frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI. Þeir hófu þegar störf hér á vettvangi og settu sig í samband við Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara. Þeir vildu fá samstarf við að afla upplýsinga í sakarannsókn sem beindist gegn Wikileaks,“ sagði Kristinn. „FBI mætti hingað á einkaflugvél og lenti á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt mínum upplýsingum, sem eru mjög traustar og ég hef fengið þetta staðfest, þá bárust upplýsingar um þessa komu til Innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem brást hinn versti við enda ótrúlega freklegt að mæta hér með þessum hætti. Samkvæmt mínum upplýsingum gerði hann þá kröfu að þessir lögreglumenn pökkuðu saman, færu um borð og hunskuðust úr landi. Þetta var síðan tekið upp, veit ég, innan ríkisstjórnarinnar og þessu var mótmælt formlega við Bandarísk stjórnvöld.“

Ögmundar Jónasson innanríkisráðherra staðfesti í samtali við fréttastofu í kvöld að í ágúst árið 2011 hafi hópur erlendra lögreglumanna komið til landsins og óskað eftir aðstoð við rannsókn tiltekins máls. Því hafi verið hafnað, enda sé óeðlilegt að lögregla erlends ríkis stundi rannsóknir hér á landi.