Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fatlaðir sjá náttúruperlur með hjálp dróna

12.07.2015 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Maður sem bundinn er við hjólastól vill ekki trúa því að drónar verði bannaðir við íslenskar náttúruperlur, gefi fólk sér tíma til að setja sig í spor fatlaðra. Dróna mætti einnig nýta til að gera hálendi Íslands aðgengilegt sem flestum.

Þetta segir Brandur Bjarnason Karlsson, formaður Flygildafélagsins sem var stofnað fyrir helgi.

Brandur er í hjólastól. Hann sér fyrir sér að með hjálp dróna eigi hann þess kost að sjá náttúruperlur sem honum hafa ekki verið aðgengilegar áður. Brandur hefur ekki alltaf verið bundinn við hjólastól. Áður var hann landvörður.

Áform eru um að takmarka notkun dróna við Bessastaði og almennt við þéttbýla staði, bæði í borg og sveit. Einnig lítur út fyrir að drónaflug verði bannað á Þingvöllum. Brandur harmar þetta.

„Ég held að hann hafi ekki séð þetta í mínu samhengi," segir Brandur og á þar við Ólaf Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum „Annas trúi ég ekki að neinn hefði farið þessa leið."

Brandur segir að það breyti miklu að komast, með einhverju móti, á staði sem ekki sé hægt að komast að á bílum. „Ég ég færi með vinum mínum á Þingvelli yrði ég alla jafna að bíða í bílnum meðan hinir fara að Öxarárfossi," segir hann. Með aðstoð dróna gæti Brandur hins vegar farið með í göngutúrinn, tekið þátt í upplifuninni, án þess að raunverulega vera á staðnum.

Hálendið innan seilingar
Það er svo ekki bara fatlað fólk sem fengi, með aðstoð dróna, aðgang að náttúru landsins. „Ég var landvörður áður en veiktist," segir Brandur. „Ég fékk að labba um hálendið og sjá allskonar hluti sem fólk sér ekki venjulega."

Hann sér fyrir sér að drónar gætu opnað alls konar möguleika sem aldrei hafa verið til staðar. Þannig mætti skoða landslag á hálendi Íslands sem einungis fáir útvaldir hafa hingað til getað séð. „Það myndi auka verðmæti staða" segir Brandur. „Ég tala nú ekki um myndbönd sem gætu orðið til. Þetta gæti verið svakaleg landkynning."

Segir dróna ekki háværa
Hluti af ástæðum sem nefndar eru til stuðnings þess að banna flug dróna er hávaði sem sagt er að fylgi þeim. Þótt Brandur sé sammála um að mikilvægt sé að hafa einhverskonar umgengisviðmið segir hann lítið heyrast í flestum drónum. Minni hávaði sé af dæmigerðum dróna í 10 til 20 metra fjarlægð en af þyrlu 200 metra frá.

„Flestir eru með svo litla dróna að það er hægt að tala saman þótt þeir séu rétt við hliðina á manni," segir Brandur. „ Mér finnst svolítið verið að ýkja ákveðna áhættu og áreiti af þeim

Brandi finnst þó sjálfsagt að bæði séu settar einhvers konar viðmiðunarreglur, sem og siðareglur, varðandi notkun dróna.