Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fátækum fjölgar

21.03.2011 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Í nýrri Gallup-könnun segir rúmur þriðjungur þátttakenda einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt. Þetta eru 12 prósentustigum fleiri en í sambærilegri könnun fyrir fjórum árum.

Fleiri virðast vera fátækir nú en árið 2007. Í könnun sem þá var gerð sögðu 23% að einhver í fjölskyldu sinni byggi við fátækt.


Í nýrri könnun Þjóðarpúls Gallup er talan komin upp í 35%. Þeim hefur því fjölgað um tólf prósentustig á fjórum árum, sem segja fátækt í fjölskyldunni.


Í könnuninni kemur einnig fram að nær 34 prósent segja að einhver í fjölskyldunni hafi einhverntíman búið við fátækt. Aðeins 31 prósent segja engan í fjölskyldu sinni búa við eða hafa búið við fátækt.


Fleiri konur en karlar segja einhvern í fjölskyldunni búa við fátækt og fleiri íbúar landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins. Þá eru þeir sem eru með háskólagráðu ólíklegri til að segja einhvern í fjölskyldunni búa við fátækt en þeir sem eru minna menntaðir.


Loks er mikill munur á svörum þeirra sem styðja ríkisstjórnina og þeirra sem styðja hana ekki. Þannig segja 26 prósent þeirra sem eru fylgjandi ríkisstjórninni einhvern í fjölskyldunni búa við fátækt á móti 40 prósentum þeirra sem styðja hana ekki.