Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fátæktargildrur og velferðarmál

Mynd:  / 
Sérstaða minni flokka í velferðarmálum felst í stöðu formanns eins þeirra sem öryrkja, áherslu annarra á innflytjendamál og baráttu gegn auðvaldshagkerfi sem dregur úr möguleikum til að byggja upp velferðarkerfi. Þetta sögðu formenn og oddvitar fimm flokka í kappræðum leiðtoganna á RÚV í kvöld.

Flokkur fólksins sker sig frá öðrum í velferðarmálum að því leyti að formaðurinn er öryrki og veit nákvæmlega hvernig staða öryrkja er. Þetta sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í leiðtogaumræðum á RÚV í kvöld. Hún sagði að svo virtist sem ráðamenn gætu ekki sett sig í stöðu öryrkja. „Það hefur í raun og veru lítið verið gert annað en að tala og tala og mala og mala,“ sagði hún um aðgerðir í þágu öryrkja.

Mynd:  / 

Sérstaða í innflytjendamálum

Íslenska þjóðfylkingin sker sig fyrst og fremst frá öðrum flokkum í innflytjendamálum, sagði Jens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar, í leiðtogaumræðum á RÚV í kvöld. Eins legðu þeir mikla áherslu á að berjast gegn spillingu. Hann sagði auð færast á færri og færri hendur og þar með væri grafið undan velferðarmálum.

Júlíus K. Valdimarsson, formaður Húmanistaflokksins, sagði sérstöðu flokksins í velferðarmálum felast í því að flokkurinn vildi vaxtalaust hagkerfi. Nú færi helmingur fjárlaga til eigenda einkabanka. Það væri þarflaust og án þess að gagnast almenningi nokkuð.

Mynd:  / 

Látið drabbast niður í áratugi

„Ástæðan fyrir því að velferðin hefur verið látin drabbast niður síðustu áratugi er að auðurinn hefur safnast á sífellt færri hendur, sagði Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar. Hann sagði að til að geta fjármagnað velferðarkerfið til lengdar þyrfti að breyta fjármálakerfinu. „Sem kommúnistar getum við alveg starfað með fólki sem er ekki kommúnistar,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði Alþýðufylkinguna vera félagslegan flokk.

Ragnar Þór Ingólfsson, oddviti Dögunar, lagði áherslu á að stokka þyrfti upp lífeyrissjóðakerfið sem væri farið að vinna mjög alvarlega gegn hagkerfinu. Hann sagði að ávöxtunarkrafa sjóðanna væri slík að það ylli álagi upp á 400 til 500 milljarða króna á ári. Hann sagði að hætta þyrfti samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða sem byggju til fátæktargildru fyrir aldraða og öryrkja.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV