Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fátækt og atvinnuleysi alvarlegt vandamál

25.05.2014 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Hlutverkasetur þyrfti að vera í öllum hverfum og sveitarfélögum, til að koma atvinnulausum út úr einangrun, inn í rútínu og þaðan út á vinnumarkaðinn. Þetta segir kona sem hefur verið án atvinnu lengi.

Félagsráðgjafar óttast að ungmenni og sérstaklega ungir karlmenn geti fest í varanlegri fátæktargildru í kjölfar langtíma atvinnuleysis. 

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru alls 4.400 á aldrinum 16 til 24 ára atvinnulausir. Atvinnutorg Reykjavíkur aðstoðar þann hóp atvinnulausra sem ekki á rétt á atvinnuleysisbótum en þiggur fjárhagsaðstoð frá félagsmálayfirvöldum. 70% þeirra sem fá aðstoð hjá Atvinnutorgi eru karlmenn, segir Tryggvi Haraldsson verkefnastjóri. Þetta er oft á tíðum fólk sem hefur verið án atvinnu í ákveðinn tíma, og við vitum öll að langtímaatvinnuleysi hefur þau áhrif á fólk að það á það til að einangrast og einangrun er ekki af hinu góða, það er fljótt að bitna á heilsu fólks,“ segir Tryggvi. 

Davíð Frímannsson er einn þeirra sem hefur verið án atvinnu meira og minna undanfarin ár. „Í það heila í kannski svona sex eða sjö ár. Manni líður svolítið illa að vera atvinnulaus, og það er svolítið erfitt að byrja að vinna aftur en það venst.“ Davíð kannast af eigin raun við hættuna á því að einangra sig frá umheiminum, en segir að gott sé að reyna að fara á stofnun á borð við Hlutverkasetur, þar sem maður fái hvatninu. 

Hlutverkasetur er meðal þeirra sem bjóða upp á úrræði fyrir atvinnuleitendur. Þar geta þeir fengið endurhæfingu og aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn. Inga Dóra Guðmundsdóttir, atvinnuleitandi segir að svona úrræði ættu að vera til staðar í öllum hverfum og sveitarfélögum. „Ef að þetta væri í öllum hverfum þá væri hægt að nýta þetta miklu betur, það eru svo margir sem að eru kannski eingangraðir heima hjá sér, og sem gætu nýtt sér þetta, og myndi kannski hjálpa þeim að komast í rútínu og þá fyrr út á vinnumarkaðinn,“ segir Inga Dóra.