Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fátækt fólk á Íslandi biður um sanngirni

12.09.2018 - 22:31
Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins. - Mynd: RÚV / RÚV
Ekki er allt slæmt í fjárlagafrumvarpi næsta árs, að mati Ingu Sæland, þingmanns Flokks fólksins. Í umræðum eftir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld sagði hún að í fjárlagafrumvarpinu mætti sjá vilja til margra verka, hún væri þó ekki sammála forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Þá gagnrýndi Inga að enginn ræðumaður hafi nefnt orðið fátækt í ræðum kvöldsins. Hún sagði brýnt að opna augun fyrir því hverjar frumþarfir fólks væru; fæði og húsnæði. Brýnt væri að útrýma fátækt hér á landi.

„Fátækt fólk á Íslandi biður um sanngirni, réttlæti og jöfnuð,“ sagði Inga. Lágmarkskröfurnar væru að eiga mat að borða og þak yfir höfuðið. Þá gagnrýndi hún hve lítil hækkun persónuafsláttar verður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, eða 535 krónur á mánuði.

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir