Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fátækasta fólkið varð verst úti

27.04.2019 - 20:05
Mjög fátækt fólk á afskekktum svæðum varð verst úti þegar fellibylurinn Kenneth reið yfir Mósambík á fimmtudag, að sögn Ínu Steinke, Íslendings sem býr í borginni Pamba í norðurhluta landins. Fellibylurinn reið þar yfir og ollu töluverðu tjóni, þó minna tjóni en fólk átti von á. Áfram hefur rignt og því eru þúsundir enn innlyksa.

Ína býr í steinhúsi sem stóð af sér veðrið og því sakaði þau fjölskylduna ekki. Óvenjulegt er að fellibyljir sem þessi ríði yfir norðurhluta landsins. Þar sem stutt er liðið síðan Idai olli miklu tjóni og mannfalli var töluverður viðbúnaður núna, að sögn Inu. Viðvörunin kom tveimur dögum áður en hann skall á og fyrst beið fólk til að sjá hvort fellibylurinn yrði að veruleika. „Þegar hann svo myndaðist fór allt í panikk. Idai er ekki eitthvað sem maður gleymir. Það er enn þá mjög ferskt í minninu enda hátt í þúsund manns sem að létust þar,“ segir Ina. 

Mynd með færslu
Ina Steinke, íbúi í Pamba í norðurhluta Mósambík. Mynd: Aðsend mynd

Byrgðu glugga og settu sandpoka á þakið

Fellibylurinn kom nær Pamba en spáð hafði verið. „Þá var bara farið í að byrgja alla glugga og henda sandpokum upp á þak og vara alla við sem við gátum varað við. Það var nú reynt að segja fólki að koma sér frá hættulegustu svæðunum en það í rauninni gengur ekki neitt því að fólk hefur ekkert annað að fara og er ekki viljugt til að skilja eftir það sem það á því það er nánast ekki neitt.“ Þau fjölskyldan voru heima og biðu af sér fellibylinn. Ekki hafi annað verið í stöðunni því þau reyndu að koma öðru fólki í skjól og því í nógu að snúast síðustu klukkutímana áður en fellibylurinn reið yfir.

Hún kveðst hafa verið hissa á því hve litlar skemmdirnar voru í Pamba. „Ég hafði ímyndað mér að í þessum vindi, að borgin hefði setið eftir hálfflöt. Það voru allir mjög hissa þegar þeir fóru út daginn eftir.“

Enn rafmagnslaust og rigning

Afskekktu héröðin sem urðu verst úti eru í um 200 kílómetra fjarlægð frá heimili Inu. Þar eru flest húsin byggð úr bambus og leir enda hvassviðri nánast óþekkt á þeim slóðum. Þar er enn rafmagnslaust og vegir í sundur. Enn rignir sem gerir aðstæður fólks mjög erfiðar. Þar er mikil fátækt. „Þetta er svo bláfátækt fólk. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því hversu fátæk þau eru. Þau eiga bara nákvæmlega ekki neitt. Þau búa í því sem þau geta fundið sér í skóginum. Peningar koma bara við sögu örsjaldan og þegar þeir gera það þá þýða þeir í rauninni minna en uppskeran. Þetta fólk lifir algjörlega á landinu og sjónum og hefur kannski ekki fengið viðvörun um fellibylinn.“

Um 369.000 börn gætu þurft á neyðaraðstoð að halda á næstu sex vikum, að mati UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.