Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fastur á flugvelli í Malasíu frá því í mars

18.07.2018 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter - Hassan Al Kontar
Sýrlenskur flóttamaður, Hassan al-Kontar að nafni, hefur verið fastur á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu frá því í byrjun mars vegna þess að hann fær hvergi vegabréfsáritun. Hann segist vera eftirlýstur í Sýrlandi vegna þess að hann neitaði að gegna herþjónustu. Styrjöld hefur geisað í Sýrlandi frá árinu 2011.

Aðstæður Hassans minna um margt á kvikmyndina The Terminal með Tom Hanks frá árinu 2004. Hann má ekki yfirgefa flugvöllinn vegna þess að hann má ekki vera í Malasíu og hann getur ekki flogið burtu frá landinu vegna þess að af því að hann er sýrlenskur flóttamaður, þá getur hann ekki fengið vegabréfsáritun í öðru landi. 

Í umfjöllun BBC kemur fram að þegar stríðið braust út í Sýrlandi árið 2011 hafi Hassan búið og starfað í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hassan hafi neitað að ganga í herinn og því verið eftirlýstur af sýrlenskum stjórnvöldum. Sameinuðu arabísku furstadæmin vildu framselja hann til Sýrlands en hann hafi mótmælt og krafist þess að verða sendur hvert sem er annað. Hann var þá sendur til Malasíu, sem er eitt fárra landa sem veitir Sýrlendingum vegabréfsáritun við komuna til landsins en tekur þó ekki við flóttamönnum. Þar mátti hann vera í þrjá mánuði og þurfti síðan að finna aðra lausn. Hassan segist hafa reynt að komast til annarra landa sem veiti Sýrlendingum vegabréfsáritun, eins og Kambódíu en hann hafi verið sendur þaðan til baka. Þá hafi hann reynt Ekvador, keypt miða þangað en Turkish Airlines þá neitað að hleypa honum um borð í vélina. Hann segist nú vera uppiskroppa  með fé og fastur á flugvellinum í Kuala Lumpur, þar sem hann fær þrjár máltíðir á dag í boði Air Asia. 

Hassan notar samfélagsmiðla til að segja sögu sína og berjast fyrir hæli. Staðan er þó farin að reyna á sálarlíf Hassans sem segist gera sitt besta til að vera bjartsýnn til þess að verða ekki þunglyndur. Þá reynir hann líka að hafa húmor fyrir aðstæðum sínum eins og sjá má í þessari færslu um slagorð Air Asia: Nú geta allir flogið, þar sem hann bætir við - nema Hassan. 

Hann hafi verið reiður öllum í fyrstu þar til hann áttaði sig á því að hopnum væri ekki hafnað af persónulegum ástæðum heldur vegna þess að hann er Sýrlendingur. 

Undirskriftasöfnun var sett af stað í Kanada þar sem þess er krafist að þarlend stjórnvöld veiti honum hæli. Yfir 31.500 þúsund hafa skrifað undir. Þar hefur hópur fólks haft samband við hann og útvegað honum lögfræðiaðstoð, atvinnuumsókn og rúmlega 17 þúsund dollara svo hann geti komið til Kanada sem hælisleitandi. Þá hefur honum verið boðið starf á hóteli í Vancoucer. Í viðtali við Newsweek í júní segir hann að Kanada sé hans eina von.  

„Virðing, mannréttindi, ást, friður, staður til að vinna og vera löglegur er það eina sem ég bið um,“ segir Hassan í myndskeiði sem hann birtir á Twitter, tveimur dögum fyrir afmælið sitt. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV