Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fasteignaverð tvöfaldaðist á 20 árum

16.11.2018 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast á innan við 20 árum og er nú sjö prósentum hærra en um mitt ár 2007, árið fyrir hrun. Þá hefur verðmunur á milli hverfa minnkað. Þetta kemur fram í skýrslu Capacent um stöðuna á fasteignamarkaði sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg. Snædís Helgadóttir hjá Capaent kynnti skýrsluna í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

„Það er það þannig núna að auglýstar eignir á höfuðborgarsvæðinu eru í algjöru lágmarki,“ sagði Snædís í samtali við fréttastofu RÚV. „Við sjáum að fjöldi sérbýla er ekki nema 150 sem er í raun það lægsta sem við höfum séð frá árinu 2006 og fjölbýlin eru ekki nema 660.“

Spurð hvað valdi þessari fasteignaþurrð segir Snædís framboðið einfaldlega ekki nægilega mikið. „Það er í raun næg eftirspurn, eins og sést á meðalsölutíma eignanna sem er ríflega tveir mánuðir.“ Þetta ástand verði hins vegar ekki langvarandi enda sýnir greiningin að búist sé við að 1.400 íbúðir komi á markað á tímabilinu 2018-2019.

192 mánuði að borga íbúð

Það tekur íbúa á aldrinum 30-34 ára um 192 mánuði, eða 16 ár, að greiða fyrir íbúð í dag. Árið 1997 tók það um 88 mánuði, eða ríflega sjö ár. Í skýrslu Capacent er gert ráð fyrir að íbúðareigendur noti allar ráðstöfunartekjur sínar til að greiða fyrir kaupin. Þetta sýnir að íbúðaverð hefur hækkað umtalsvert umfram ráðstöfunartekjur síðustu 20 árin.

Mynd með færslu
 Mynd:

Á sama tíma hefur eiginfjárstaða Íslendinga ekki verið sterkari í 20 ár. Í samantektinni segir sterkari eiginfjárstaða hefur bæði verið sótt í hærri ráðstöfunartekjur og hækkun fasteignaverðs sem hefur hækkað mikið umfram verðlag.

Leigjendur vilja kaupa

Í skýrslu Capacent kemur fram að einungis 11 prósent Reykvíkinga segist vera líkleg til þess að leigja þegar það skiptir næst um húsnæði. Þetta hlutfall var 18 prósent árið 2013. Leigjendur segjast vilja kaupa næst þegar þeir skipta um húsnæði.

Það einkennir leigjendur að þeir eru yngri en þeir sem eiga húsnæði sitt. Leigjendur hafa jafnframt lægri tekjur en greiða hærri greiðslur vegna húsnæðis. Um 60 prósent leigjenda áætla að þeir hafi minna en fimm milljónir króna í eigið fé við kaup á næsta húsnæði. Þá áætla leigjendur að þeir kaupi ódýrara húsnæði en þeir sem þegar eiga fasteign.

3.200 til 4.000 íbúðir vantar á næstu árum til þess að fullnægja þörf fyrir nýjar íbúðir í borginni. Gæta þarf að aldurssamsetningu borgarbúa enda benda mannfjöldaspár Hagstofunnar til að íbúum á þrítugsaldri muni fækka og að fjöldi íbúa á fertugsaldri standi í stað til framtíðar. Mikið eigi svo eftir að fjölga í eldri aldursflokkum.

Hlutfall nýrra fasteignaeigenda hefur hækkað verulega á síðustu árum og á fyrri hluta þessa árs voru 26% fasteignakaupa fyrstu kaup. Árið 2009 var þetta hlutfall sex prósent.

Mynd með færslu
 Mynd:

Í skýrslu Capcent kemur einnig fram að ný hótel og aukið eftirlit með heimagistingu dragi úr þörf fyrir nýbyggingar. Sem dæmi er bent á að hótelherbergjum fjölgi um 1.300 á næstu tveimur árum. Árið 2017 voru fullgerðar íbúðir í Reykjavík um 530 sem er á pari við meðaltal síðustu tveggja áratuga. Fjöldi fullgerðra íbúða hefur ekki hærra en meðaltalið síðan 2007.

Capacent byggir greiningu sína meðal annars á könnun sem Gallup vann. Könnunin var framkvæmd dagana 8.-22. október síðastliðinn og af þeim 3.000 manns 25 ára og eldri sem haft var samband við svöruðu 59,8 prósent könnuninni.