Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fasanar í Þrastarskógi

20.12.2010 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórir fasanar sáust við þjóðveginn í gegnum Þrastarskóg í birtingu í gærmorgun. Náttúrufræðistofnun segir að rjúpum stafi sýkingarhætta af fasönum.

Ólafur Vigfússon úr Reykjavík var á ferð akandi gegnum Þrastarskóg í birtingu í gærmorgun þegar hann kom auga á fjóra fugla í þýfi við veginn. Þegar betur var að gáð voru þetta fjórir fasanar, tveir hanar og tvær hænur. Hanarnir gerðu sig breiða og þöndu stél. Þeir eru litskrúðugir og tignarlegir, en hænurnar halda sig við jarðlitina. Styggð kom að fuglunum og flugu þeir inn í skóg, en Ólafur náði að taka mynd af öðrum hananum.


Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrurfræðistofnun, segir að í nokkur ár hafi verið uppi kvittur um hálfvillta fasana í Þrastarskógi. Nokkir fuglar sáust til að mynda við Kerið síðsumars. Fasanar hafi verið ræktaðir hér á landi, á Fljótsdalshéraði, í Hornafirði og á Skeiðum til dæmis. Óheimilt er hins vegar að sleppa fuglunum út í náttúruna. Fasanar eru hænsnfuglar. Rjúpum stafar hætta af þeim vegna sýkingar. Fasönum frá Asíu hefur verið sleppt til veiða víða í Evrópu og hefur akurhænustofninum á Bretlandi hrakað mjög á liðnum árum vegna þessa.