Farþegaskip í vanda vegna COVID-19

25.03.2020 - 08:10
epa06834855 Cruise ship 'Artania' arrive to Kiel Bay during Kieler Woche, Kiel, Germany, 23 June 2018.  Kiel Week is also the largest sailing event in the world and runs from 16 to 24 June. Kiel Week usually gathers around 5,000 sailors, 2,000 ships, and about three million visitors each year.  EPA-EFE/FILIP SINGER
Farþegaskipið Artania. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tvö farþegaskip, sem eru undan ströndum Ástralíu, hafa beðið um aðstoð vegna COVID-19. Bæði skipin voru á leið til borgarinnar Perth.

Öðru skipinu, þýska skipinu Artania, hefur verið meinað að koma að landi, en yfirvöld í Vestur-Ástralíu hafa sent heilbrigðisstarfsmenn um borð til að kanna ástand farþega. Tuttugu og fimm af 800 farþegum höfðu kvartað undan einkennum í öndunarfærum. Engir Ástralar eru þar um borð.

Í hinu skipinu, Vasco da Gama, eru 800 Ástralar og ríflega hundrað Nýsjálendingar. Því hefur verið gert að sigla til Rottnest-eyjar, sem eitt sinn hýsti fanga, en farþegar verða þar í sóttkví í hálfan mánuð. Þá verða ástralskir farþegar fluttir í land, en nýsjálenskir til síns heima.

Stjórnvöld í Ástralíu vilja koma í veg fyrir að atburður sem gerðist nýlega hinum megin í Ástralíu endurtaki sig þegar farþegaskip kom til Sydney og 2.700 farþegar fóru í land án skoðunar. Meira en 130 þeirra voru með kórónuveiruna.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi