Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Farsíminn varð eftirlýstum brotamanni að falli

06.05.2018 - 22:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Farsímanotkun undir stýri varð brotamanni að falli í dag. Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglumenn hafi síðdegis í dag stöðvað för ökumanns sem var að tala í farsíma, án handfrjáls búnaðar, og notaði auk þess ekki stefnuljós eins og honum bar. Reyndist ökumaðurinn undir áhrifum fíkniefna og þegar nánar var að gáð kom í ljós að hann var eftirlýstur af erlendum lögregluyfirvöldum.

Ekki kemur fram hvers lenskur maðurinn er eða fyrir hvað hann er eftirlýstur. Sektin fyrir að tala í síma undir stýri, án handfrjáls búnaðar, hækkaði um síðustu mánaðamót í 40.000 krónur, en var áður 5.000. Þá hækkaði sektin fyrir stefnuljósabrot í 20.000 krónur. Um níuleytið í kvöld stöðvaði lögregla svo annan ökumann, sem einnig var að tala í farsíma undir stýri. Sá reyndist líka undir áhrifum fíkniefna.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV