
„Farnir að kalla okkur hvalreka“
Hátt í áttatíu grindhvalir gerðu sig heimakomna við höfnina í Rifi á Snæfellsnesi í dag. Margir kálfar voru í vöðunni en hvalirnir voru nokkru þrjóskari en aðrir hvalir sem hafa synt að Rifi, segir Helgi.
Brugðist við með látum
Björgunarsveitin Lífsbjörg var kölluð út um þrjúleytið og voru björgunarsveitarmenn komnir aftur í land um tveimur tímum síðar. „Þegar við komum út voru nokkrar skeppnur strandaðar eða í grjótinu,“ segir hann. Björgunarsveitarfólk hafi brugðist við með látum. „Bara nógu mikið af látum til að reka þetta í burtu. Það er eina leiðin.“
Aðgerðir hafi gengið erfiðlega í fyrstu. „Við vorum bara með einn bát til að byrja með. Svo náðist að manna annan bát og þá gekk þetta miklu betur fyrir sig. Þeir nefnilega synda alltaf til baka, þeir ætluðu bara á land.“ Með aðstoð annars báts hafi svo tekist að koma þeim út fyrir hafnargarðana, um tvær mílur, segir Helgi, eða þangað til hvalirnir tóku sjálfir stefnuna út á haf.
Helgi vonar að þeir snúi ekki aftur enda er björgunarsveitarfólk í Rifi orðið langþreytt á grindhvölum. „Það væri okkar heitasta ósk, jú. Þetta er orðið frekar þreytt. Þetta er þriðja útkallið á þessum hvölum og fimmta útkallið á tveimur árum,“ segir hann. „Þeir eru farnir að kalla okkur hvalreka.“