Farið fram á að ráðherrar verði látnir lausir

29.11.2019 - 07:35
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, koma fyrir dóm nú fyrir hádegi þar sem farið verður fram á að þeir og fjórir aðrir verði látnir lausir úr haldi gegn tryggingu.

Verjendur ráðherranna eru suðurafrískir og hafa staðið í málarekstri fyrir Jakob Zuma, fyrrverandi forseta Suður Afríku sem hefur verið grunaður um spillingu í níu ára stjórnartíð sinni. The Namibian Sun greinir frá. 

 

Sexmenningarnir voru allir leiddir fyrir dómara í gærmorgun en málinu þá frestað til dagsins í dag svo mennirnir fengju ráðrúm til þess að ráðfæra sig við lögmenn sína.

 

Esau og Shanghala sögðu af sér embætti fyrir rúmum hálfum mánuði í kjölfar uppljóstrana um að þeir og aðilar þeim tengdir hefðu þegið greiðslur frá dótturfélögum Samherja til að greiða fyrir því að félögin fengju eftirsóttan kvóta.  Kveikur og Stundin hafa rannsakað gögn sem lekið var til Wikileaks í samstarfi við Al Jazeera Investigates.

Aðrir sem handteknir hafa verið vegna málsins eru James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisrekna sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor, Ricardo Gustavo sem eins og Hatuikulipi var í stjórnunarstöðu í Investec Asset Management Namibia og Tamson Fitty Hatuikulipi, sem er bæði tengdasonur Bernhardts Esau og frændi James Hatuikulipi og sjötti maðurinn sem handtekinn hefur verið vegna málsins er Pius Mwatelulo sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi