
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ríkið muni fela Farice að leggja strenginn eða hvort einkaaðilar komi að verkinu.
Sjávarbotninn frá Grindavík að Killala í Írlandi er rannsakaður með sæstrenginn í huga. Gert er ráð fyrir að kostnaður við rannsóknina verði 1,9 milljónir evra eða því sem nemur 260 milljónum króna. Ef af lagningu sæstrengs verður á kostnaðurinn eftir að verða mun meiri eða á fimmta milljarð króna.
Þrír strengir æskilegir
Af öryggisástæðum og til þess að tryggja gagnaflutningsgetu er talið æskilegt að hafa þrjá tengipunkta við Evrópu. Það þykir merkilegt að strengirnir tveir sem fyrir eru og Farice rekur, Farice-1 og Danice, hafi ekki bilað enn.
Farice-1 var lagður árið 2003 og Danice árið 2009. Hættan á bilunum eykst eftir því sem sæstrengirnir eldast. Fyrirtæki sem hafa áhuga á viðskiptum á Íslandi telja mikilvægt að hafa örugga tengingu.