Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Fáránlegt að þetta geti gerst“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson - RÚV
Fyrir tæpum fimm árum síðan féll sonur Sigríðar Sveinsdóttur fyrir eigin hendi á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Í síðustu viku svipti ungur maður sig lífi á geðdeild Landspítalans, um hálfum sólarhring eftir að hann var fluttur þangað í sjálfsvígshættu. Það er fátítt að fólk svipti sig lífi inni á geðdeildum hér á landi en kemur þó fyrir. Landlæknisembættið veitir ekki upplýsingar um fjölda tilvika en þau eru að minnsta kosti fjögur á síðastliðnum tíu árum.

 

Þá eru nokkur dæmi um að sjúklingar á Vogi hafi framið sjálfsvíg. 

Engar upplýsingar frá Landlæknisembættinu

„Það er sjaldgæft að sjálfsvíg verið á geðdeildum á Íslandi, við vitum um sjálfsvíg á Akureyri og fyrir tíu árum síðan voru tvö hér í Reykjavík en mannslíf er óendanlega mikils virði og við verðum að gera allt til þess að svona gerist ekki." Þetta segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar. Ekki fékkst staðfesting frá Landlæknisembættinu á fjölda þeirra sem framið hafa sjálfsvíg á sjúkrastofnunum síðastliðin ár. Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá embættinu, segir stofnanasjálfsvíg afar fátíð. Þau flokkast sem alvarleg atvik og því á að tilkynna embættinu um þau. Starfsmenn þess fara yfir atviksskýrslur frá stofnununum. Misjafnt er hvernig Landlæknisembættið bregst við tilkynningum um alvarleg atvik, stundum telur það þörf á úrbótum og kemur ábendingum á framfæri, stundum er ekki talin þörf á slíku. Anna Björg segir of fyrirhafnarsamt að hafa upp á þessum gögnum, Spegilinn geti því ekki fengið í hendurnar upplýsingar um hversu oft embættið hefur gert athugasemdir við verkferla sjúkrastofanna í kjölfar stofnanasjálfsvíga.

Skilur ekki hvernig þetta gat gerst

„Mér finnst bara fáránlegt að svona hlutir geti gerst yfirleitt og að við séum enn á sama stað eftir allan þennan tíma, það er ekkert gert," segir Sigríður Sveinsdóttir. Sveinn Ingi, sonur hennar, var 19 ára þegar hann lést. Hann var lagður inn á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri á laugardegi og Sigríður segir að það hafi staðið til að útskrifa hann á miðvikudegi. Sigríði fannst það ekki tímabært þar sem sonur hennar glímdi enn við sjálfsvígshugsanir. „Þá var mér tjáð að geðdeild væri ekki meðferðarstofnun, að vegna þess að hann væri í neyslu þyrfti hann að fara inn á Vog." 

Leyft að sofa út á laugardögum

Hún fékk læknana til að fresta útskrift fram til þriðjudags en þá átti að innrita Svein Inga á Vog. Hann hafði áður lagst þar inn og var ekki sáttur við að fara þangað aftur en vildi þiggja þá hjálp sem var í boði. Á laugardegi var Sigríði svo tilkynnt að sonur hennar væri látinn. Sigríður segist ekki hafa treyst sér til að skoða krufningarskýrsluna og það kom henni í opna skjöldu þegar greint var frá því í fréttum sjónvarps í gær að átta tímar hefðu liðið frá því sonur hennar lést og þar til komið var að honum. Hún segir að eftir andlátið hafi forsvarsmenn spítalans tjáð henni að á laugardögum væri engin dagskrá og sjúklingum því leyft að sofa út. „Hvenær dó hann og hvenær var farið inn á herbergið? Og að vera með þá afsökun að það sé ekkert prógramm á laugardögum, þú átt samt að tékka á sjúklingunum."

Finnst ábyrgðinni vera varpað yfir á veik ungmenni

Hún segist hafa orðið vör við fjárskort á deildinni, það hafi verið lítið um viðtöl hjá sálfræðingum og geðlæknum. Henni finnst þjóðfélagið dæma þá sem eiga við vímuefnavanda að stríða og segir að það þurfi að greina rót vandans. Sonur hennar hafi leitað í fíkniefni vegna geðræns vanda, hann sagði henni til dæmis, skömmu áður en hann lést, að raddirnar í höfðinu á honum hefðu fyrst hljóðnað þegar hann byrjaði að reykja gras. „Fíkill sem er í fíkniefnum út af geðrænum vandamálum og fíkill sem er með geðræn vandamál út af fíkn. Það hlýtur að þurfa að nálgast þetta á tvenna vegu sko."

Sigríður er sár og reið út í kerfið og finnst það hafa brugðist syni hennar og öðrum ungmennum í neyslu sem farið hafa sömu leið. Kerfið varpi ábyrgðinni yfir á þau og bjóði engar úrlausnir. Þau eigi að laga sig. „Þau fara inn á Vog og annað hvort inn á Staðarfell eða Vík en svo tekur ekkert við. Hvert fer þetta fólk, það þekkir ekkert annað en fíkniefnaheiminn og fer auðvitað aftur þangað, allir vinirnir eru þar."

Hún segist ekki hafa fengið áfallahjálp eftir sonarmissinn en prestar á Akureyri hafi reynst sér vel. 

Telur að alltaf eigi að vera hægt að fyrirbyggja sjálfsvíg

 Anna Gunnhildur telur að það eigi að vera hægt að koma í veg fyrir að sjúklingar á geðdeildum fremji sjálfsvíg. „Við lítum svo á að þegar ættingjar og vinir sjá á eftir fólki inn á geðdeildir eigi þeir að geta verið vissir um að fólkið sé öruggt og að því takist ekki að taka eigið líf, alveg sama hvað viljinn er mikill. Það fyrsta sem við gerum er að snúa okkur til spítalans og óska eftir því að það verði farið mjög ítarlega í gegnum þetta ferli, hvað átti sér þarna stað og hvað getum við gert til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Þá erum við að tala um þessa ferla, að það sé rétt greint, að það sé alveg ljóst að það eigi að líta inn til viðkomandi með mjög stuttu millibili. Þessu þarf svo að fylgja eftir alveg sama hvað gerist."

Herbergin verði að vera sjálfsvígsheld

Anna Gunnhildur segir brýnt að tryggja að herbergin á geðdeildum Landspítalans séu sjálfsvígsheld, að það sé með engu móti hægt að stytta sér aldur í þeim. Til séu leiðbeiningar, til dæmis frá Bandaríkjunum, um hvernig hægt sé að útbúa slík herbergi. „Ég veit að eftir sjálfsvíg sem urðu á spítalanum fyrir einhverjum tíu árum síðan var gert átak varðandi innréttingar á snyrtingum en því er ekki alveg lokið og það þarf bara að passa upp á þetta."

Áföll algeng orsök

 Síðastliðin ár hafa um 40 manns fallið fyrir eigin hendi á Íslandi. Fleiri karlar stytta sér aldur en konur og sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Anna segir að sumir þeirra eigi við geðræn vandamál að stríða aðrir ekki. „Ég er ekki með beinar tölur en ég held að í þessum hópi séu fleiri en færri sem eiga ekki við geðrænan vanda að stríða. Þetta eru frekar þessi vandamál lífsins og við höfum sagt við þessa ungu karla, eins og Churchill sagði, ef þér finnst þú vera að ganga í gegnum djúpan, dimman dal, í öllum bænum, haltu áfram að ganga og ekki birgja þetta inni. Talaðu við þína nánustu eða fagfólk og hringdu í 1717, að nóttu sem degi." 

Þá bendir hún á að tveir þriðju þessarra ungu manna hafi verið undir áhrifum vímuefna þegar þeir styttu sér aldur. 

Anna Gunnhildur segir Geðhjálp leggja áherslu á að ungt fólk geti leitað sér hjálpar sem fyrst. „Við viljum að börn hafi aðgang að sálfræðingum í gegnum skóla eða heilsugæslu, að það séu sálfræðingar í öllum framhaldsskólum og á öllum heilsugæslustöðvum. Við viljum að fólk hafi 100% aðgengi að geðsviðinu allan sólarhringinn, þegar bráð neyð er fyrir hendi, og að fólk sé ekki útskrifað nema það sé örugglega komið í jafnvægi og það bíði eitthvað annað, einhver eftirfylgni. Loks viljum við að það fylgi stuðningur við fjölskylduna. Það þarf að bæta þetta allt."

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV