Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Faraldur sjálfsvígstilrauna í Kanada

11.04.2016 - 20:08
Attawapiskat, Ontario.
Frá Attawapiskat Mynd: Wikimedia Commons
Samfélag frumbyggja í norðanverðu Kanada hefur lýst yfir neyðarástandi vegna faraldurs sjálfvígstilrauna. Um helgina reyndu ellefu manns að fyrirfara sér í tvö þúsund manna byggðarlagi.

Attawapiskat-fólkið býr á afskekktu svæði við ósa samnefnds fljóts við Hudson-flóa í Ontario-fylki.

Frá því í september er vitað um rúmlega eitt hundrað sjálfsvígstilraunir fólks á öllum aldri í þessu tvö þúsund manna samfélagi. Einn er látinn. Þegar ellefu reyndu að stytta sér aldur um nýliðna helgi ákváðu leiðtogar samfélagsins að lýsa yfir neyðarástandi til að fá aðstoð frá stjórnvöldum landsins.

Attawapiskat-fólkið er ekki það eina sem skuggi sjálfsvíga hvílir yfir. Í síðasta mánuði lýsti annað frumbyggjasamfélag í Manitoba yfir neyðarástandi eftir að sex manns fyrirfóru sér á nokkurra mánaða tímabili.

Sheila North, leiðtogi frumbyggja í Manitoba, sagði í viðtali kanadíska ríkisútvarpið CBC að misskipting og fátækt væru á meðal orsaka þessa voveiflega ástands. „Þegar þú hefur ekki sömu tækifæri og aðrir í landinu, hvort sem það eru atvinnutækifæri eða tækifæri til að sækja sér góða menntun, eða bara til að eignast fallega hluti, þá finnst þér þú vera utangarðs,“ var haft eftir henni.

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada lýsti í gærkvöld yfir miklum harmi vegna þessa voveiflega ástands. Ákveðið hefur verið að senda teymi geðheilbrigðistarfsmanna til Attawapiskat.

Frumbyggjar í Kanada, indíánar og inútítar, eru ein milljón og fjögur hundruð þúsund og samfélög þeirra glíma við margvísleg félagsleg vandamál.

 

 

sveinnhg's picture
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV