Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fara yfir nýtt tilboð í kjaradeilu

13.01.2017 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samninganefnd sveitarfélaga lagði fram nýtt tilboð í kjaraviðræðum við Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum á samningafundi hjá ríkissáttasemjara í gær. Dagrún Hjartardóttir, starfandi formaður félagsins, segir að allir séu meðvitaðir um að samningar þurfi að nást. Samninganefnd félagsins fari yfir tilboðið fram að næsta samningafundi á þriðjudag.

Dagrún segist ekki geta tjáð sig um efni samningstilboðsins á meðan það er til umræðu. 

Tónlistarkennarar hafi verið samningslausir í fimmtán mánuði. Félagið hafi fyrir áramót reynt að höggva á hnútinn með því að slá af öllum kröfum og lagt til skammtímasamning með afturvirkri hækkun launa. Því hafi ekki verið tekið.

„Það var jólagjöf sveitarfélaga til starfsmanna sinna,“ segir Dagrún. „Það var mjög þungt hljóð hjá tónlistarkennurum sem fóru í jólafrí með þeim skilaboðum.“ 

Í ályktun félagsins frá því í liðinni viku segir meðal annars að óásættanlegur launamunur sé milli kennara sem starfa í tónlistarskólum og annarra kennara. Þannig hafi það verið um ára bil. Kröfur félagsins hafi miðað að jöfnun launakjara kennara og stjórnenda innan aðildarfélaga Kennarasambands Íslands sem semja við sveitarfélögin. 

Dagrún segir að það vanti ekki upp á samningsvilja. „Þegar menn hafa verið samningslausir í svo langan tíma, engar kröfur þeirra fengið hljómgrunn og tilboð um skammtímasamning til að leysa deiluna hafi ekki leyst hana, þá verður að skoða þann part mjög vel.“

Dagrún segir að næsti fundur hafi verið boðaður á þriðjudag klukkan tvö. 
 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV