Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fara úr landi til að láta umskera drengi

18.02.2018 - 08:54
epa03002966 A picture made available on 14 Novermber 2011 shows Surgeon Gabor Hollos arranging medical tools prior to the traditional Jewish circumcision ceremony of eight-day-old Ruben in the Bet Shalom synagogue in Budapest, Hungary, 13 November 2011
 Mynd: EPA
Ísland gæti orðið fyrsta Evrópulandið til að banna umskurð drengja á sama tíma og teikn eru á lofti um að þessi siður gyðinga og múslima geti orðið næsta ásteytingsefnið í baráttunni um trúfrelsi. Þannig hefst grein í breska vikublaðinu The Observer í dag. Þar er fjallað um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um að banna umskurð drengja. Í greininni segir að íslenskir múslimar fari til útlanda til að láta umskera syni sína.

Í The Observer er minnst á gagnrýni kaþólskra klerka sem hafa lýst frumvarpinu sem hættulegri árás á trúfrelsi. Þar er líka rætt við talsmann Milah UK, hreyfingar gyðinga sem berjast fyrir réttinum til umskurðar, og Ahmad Seddeeq, klerks við Menningarsetur múslima á Íslandi. Báðir lýsa þeir andstöðu við frumvarpið og segja það aðför að trúfrelsi. Seddeeq segir að íslenskir múslimar ferðist nú þegar til annarra landa til að láta umskera syni sína vegna tregðu íslenskra lækna til að gera slíkt. 

Einnig er rætt við Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrsta flutningsmann frumvarpsins. Hún segir að málið snúist um réttindi barna en ekki trúfrelsi. Hún segir að hver megi trúa því sem hann vill en að réttindi barna komi alltaf á undan réttinum til trúar. „Ég held að ef þetta verði að lögum á Íslandi feti önnur ríki sömu leið.“

Í greininni í The Observer er tekið fram að í Þýskalandi megi aðeins þjálfaðir sérfræðingar sjá um umskurð drengja. Staðan hafi breyst að því leyti árið 2012 eftir umdeildan dóm um að umskurður breytti líkama drengja með óafturkræfum hætti. Einnig er bent á ályktun Evrópuráðsins um að aðildarríkin ættu að hafa eftirlit með hefðum til að koma í veg fyrir aðgerðir sem séu ekki gerðar með hag barnsins að leiðarljósi og án bestu læknisfræðilegu hjálpar. Ísraelsk stjórnvöld hafa deilt hart á þá ályktun. Að auki er bent á dóm í Bretlandi þar sem sagði að ekki ætti að umskera drengi fyrr en þeir gætu sjálfir tekið ákvörðun um slíkt. Þar tókust fráskildir foreldrar á um hvort umskera ætti syni þeirra.

Mikil viðbrögð

Frumvarpið hefur vakið mikla athygli, þótt það sé ekki enn komið til fyrstu umræðu í þinginu. Rabbínar hafa mótmælt frumvarpinu og það sama hafa kaþólskir kardínálar gert. Tekist hefur verið á um hvort réttindi barna eða trúfrelsi vegi þyngra á metum. Forseti Alþingis sagði, eftir að mótmæli bárust erlendis frá, að þingið mætti ekki bogna undan því þótt mál kveiktu viðbrögð en að halda ætti áfram með þau á yfirvegaðan og málefnalegan hátt.