Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fanndís gengin til liðs við Marseille

Mynd með færslu
 Mynd: KSÍ

Fanndís gengin til liðs við Marseille

26.08.2017 - 11:47
Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir er gengin í raðir Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fanndís fer strax til franska liðsins og leikur því ekki meira með Breiðabliki á tímabilinu. Fanndís hefur verið algjör lykilleikmaður hjá Breiðabliki síðustu ár og skorað 104 mörk í 197 leikjum fyrir félagið.

Tilkynnt var í morgun um að Blikar hefðu komist að samkomulagi við Marseille í Frakklandi um vistaskipti leikmannsins. Franska deildin er ein sú sterkasta í heimi en Marseille lenti í 4. sæti á síðustu leiktíð. Deildin hefst í september og Fanndís fer því strax til Frakklands og undirbýr sig fyrir nýtt tímabil með Marseille.

Því er um mikla blóðtöku að ræða fyrir Breiðablik sem situr í 2. sæti úrvalsdeildar kvenna, átta stigum á eftir toppliði Þórs/KA þegar fjórar umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. Fanndís Friðriksdóttir var einn besti leikmaður Íslands á Evrópumótinu í Hollandi í sumar og skoraði eina mark liðsins þegar hún kom Íslandi yfir gegn Sviss í öðrum leik riðlakeppninnar. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Fanndís átti eitt af flottustu mörkunum á EM