Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fangi festur á planka

21.05.2013 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Nefnd Evrópuráðsins gegn pyndingum fer í skýrslu fram á tafarlausa rannsókn á atviki þar sem fangi á Litla Hrauni var í fyrra hlekkjaður á grúfu við planka og handjárnaður fyrir aftan bak.

Þetta kemur fram í drögum að skýrslu nefndarinnar, sem var hér á ferð í sepember síðastliðnum. Skýrslan er nú í umsagnarferli íslenskra yfirvalda. Nefndin gerði úttekt hjá lögreglunni, á geðdeildum og í fangelsum hér á landi.

Í kaflanum um fangelsi segir að nefndin hafi nánast engar ásakanir fengið um að starfsfólk þeirra fangelsa sem skoðuð voru hafi beitt fanga líkamlegu harðræði. Þegar nefndin kom hingað til lands árið 2004 lét hún fjarlægja járnhringi úr gólfi öryggisklefa á Litla Hrauni og vakti það athygli nefndarinnar í september að búið var að koma upp svipuðum búnaði að nýju, það er að segja viðarplanka með sex járnhringjum á. Þegar nefndin lét áhyggjur sínar í ljós við fangelsisstjórann var fullyrt að búnaðurinn væri ekki lengur í notkun. Í bréfi frá íslenskum stjórnvöldum í janúar síðastliðnum hafi síðan verið tilkynnt að búnaðurinn hafi verið fjarlægður og verði ekki settur upp að nýju.

Í drögum að skýrslu nefndarinnar segir að 10. júlí á síðasta ári hafi fangi verið lagður á grúfu á viðarplankann og handjárnaður fyrir aftan bak og hafður þannig í tvær klukkustundir. Þetta hafi haft hættu í för með sér, ekki síst í ljósi þess að fanginn var að sögn astmasjúklingur. Nefndin skoðaði upptökur úr eftirlitsmyndavél sem sýndi að þótt fanginn hafi verið mjög æstur áður en hann var fjötraður, skemmt klefa sinn og skaðað sig, hafi hann virst rólegur og samvinnuþýður þegar hann var festur á plankann. Hann fullyrti við nefndina að hann hafi meiðst á öxlum við aðgerðina og sagðist ætla að stefna fangelsisyfirvöldum fyrir illa meðferð.

Nefndin fór fram á að íslensk stjórnvöld upplýstu hana um rannsókn á atvikinu og í bréfi íslenskra stjórnvalda í janúar fylgdi skýrsla fangelsislæknis þar sem fram hafi komið að fanginn hafi verið undir stöðugu eftirliti, en ekkert komi fram um rannsókn á atvikinu. Nefndin ítrekar beiðni um upplýsingar á niðurstöðum rannsóknar á málinu og ef slík rannsókn hafi ekki farið fram leggur hún til að ítarleg og óháð rannsókn fari fram án tafar.