Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fangelsismálastofnun reyni að undirbjóða ekki

08.10.2018 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fangelsismálastjóri segir að Fangelsismálastofnunin reyni að stunda ekki undirboð, eins og Alþýðusambandið hefur gagnrýnt stofnunina fyrir. Fangelsismálastjóri segir að vinnan skipti miklu fyrir betrun fanga.

Fangar í afplánun vinna ýmiss konar vinnu bæði innan veggja fangelsisins sem utan. Alþýðusambandið hefur sent Fangelsismálastofnun bréf þar sem segir að ábendingar hafi borist um að fangar á Kvíabryggju taki vinnu af iðnaðarmönnum á svæðinu með undirboði. Laun fanganna séu langt undir lágmarkslaunum almennra kjarasamninga.

„Fangelsismálastofnun á að útvega mönnum vinnu í fangelsi eða föngum vinnu í fangelsi og utan fangelsa. Fyrir vinnuna fá fangar greitt skv. gjaldskrá í samræmi við lög um fullnustu refsinga. Við erum í vandræðum með að fá vinnu fyrir fanga, okkur vantar verkefni, þannig að við leitum víða fanga. Við reynum ekki að stunda undirboð. Þegar mínir menn fá boð um vinnu utan fangelsi eru það yfirleitt verkefni sem aðrir hafa ekki fengist til að vinna, t.d. að moka úr fjárhúsum eða gera við girðingar eða annað þess háttar. Ef menn hafa farið of langt þá er það ekki nógu gott og við þurfum að taka á því,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Þannig að þú útilokar ekki að þið séuð að undirbjóða?

„Ég útiloka ekki að einhver hafi einhvern tímann viljað vinna einhverja vinnu sem fangar hafa unnið undir eftirliti fangavarða utan fangelsis. Ég get ekki fullyrt um það,“ segir Páll.

Vinnan skipti miklu máli fyrir betrun fanga og dragi úr líkunum á því að þeir leiti í fíkniefni. Fangelsismálastofnun græði ekki á vinnu fanga.

„Ef við tölum bara um rekstur, þá beinlínis töpum við á því að veita föngum vinnu. Við erum með verkstjóra sem fylgjast með vinnu fanga, fangaverði sem fylgjast með þeim utan fangelsanna. Þannig að ódýrasta og hagkvæmasta leiðin væri að fangar væru ekki með vinnu. En þar með værum við líka að gefa skít í það sem skiptir mestu máli að gefa þeim kost á að bæta sig, taka þátt í samfélaginu og verða nýtir þjóðfélagsþegnar, það gerum við ekki með því að loka þá inni og láta þá gera ekki neitt,“ segir Páll.
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV