Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fangelsisdómar í verðsamráðsmáli

01.12.2016 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚv - RÚV
Sex starfsmenn byggingavöruverslana voru í dag dæmdir í fangelsi í Hæstarétti fyrir brot gegn samkeppnislögum. Dómarnir eru að mestu skilorðsbundnir. Málið snýr að samráði um verð á svokölluðum grófvörum – gifsplötum, steinull og timbri – á árunum 2010 og 2011.

Tólf starfsmenn Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins voru upphaflega ákærðir í málinu. Sérstakur saksóknari höfðaði það vegna meints samráðs um verð á grófvörum. Mennirnir voru handteknir í mars 2011. Ellefu mannanna voru sýknaðir af öllum sakarefnum, í apríl í fyrra. Tólfti maðurinn fékk eins mánaðar skilorðsbundinn dóm, en var sýknaður af veigamestu ákæruliðunum.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar, sem komast að þeirri niðurstöðu að einn mannanna ætti að sæta fangelsi í átján mánuði, tveir í níu mánuði og þrír í þrjá mánuði. Allir fangelsisdómarnir eru þó skilorðsbundnir utan þess þyngsta, þar sem þriggja mánaða fangelsi er óskilorðsbundið. Ákvörðun um refsingu tveggja manna var frestað og fellur hún niður eftir tvö ár, haldi þeir skilorð. Þá staðfesti Hæstiréttur sýknudóm yfir tveimur mönnum.