Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fangar fá aðgang að geðlæknum: „Ég fékk bara tár“

05.12.2019 - 19:58
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Fangar á Íslandi geta leitað til geðlæknis þegar þeir þurfa á honum að halda, eftir að samningur þess efnis var undirritaður í morgun. Hjúkrunarfræðingur sem hefur unnið með föngum í 27 ár segir þetta breyta öllu.

Allir fangar á Íslandi geta nýtt sér þjónustu þverfaglegs geðheilsuteymis, samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var í fangelsinu á Hólmsheiði í morgun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta risastórt skref í átt að því að koma á laggirnar geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga á Íslandi.  
 
„En fyrst og fremst er þetta löngu tímabær ákvörðun sem snýst um það að koma fangelsum á Íslandi inn í 21. öldina,“ segir Svandís.

Teymið verður mannað af geðlæknum, sálfræðingum, hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum eftir því sem við á, og fer á milli fangelsa. Til stóð að setja 55 milljónir í verkefnið, en Svandís hefur ákveðið að 70 milljónir króna verði settar í það á næsta ári. 

„Það er sannarlega þörf á þessu og auðvitað er það þannig að fangar, rétt eins og allir aðrir, eiga rétt á geðheilbrigðisþjónustu. Því miður hefur hún ekki verið fyrir hendi,“ segir Svandís.

Margra ára bið

„Þetta þýðir einfaldlega að mínir skjólstæðingar eru loksins að fá geðheilbrigðisþjónustu sem er í lagi. Hún hefur ekki verið í lagi um margra áratuga skeið. Og það er hreinlega að verða að veruleika í dag og ég er ákaflega ánægður með það,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Eru geðheilbrigðisvandamál algeng meðal fanga?

„Þau eru mjög algeng meðal fanga og vímuefnavandamál eru tengd því. Oft er erfitt að greina á milli, menn með tvígreindan vanda og svo framvegis. Þannig að þetta er mjög góð byrjun. Og ég geri ráð fyrir að í framhaldinu verði skipulögð massív vímuefnameðferð í fangelsum landsins. Og þar með erum við komin á 21. öld,“ segir Páll.

Björk Guðmundsdóttir, sem hefur unnið sem hjúkrunarfræðingur í fangelsum í 27 ár, segir að þetta séu mikil gleðitíðindi.

„Við erum búin að bíða eftir þessu í alveg ofboðslega mörg ár. Þetta er stóri draumurinn sem ég hélt að myndi aldrei rætast. Og ég fékk bara tár. Það var bara svoleiðis.“

Þannig að þetta skiptir miklu máli bæði fyrir ykkur og fangana?

„Bara öllu máli. Öllu máli. Almenn heilbrigðismál eru svo miklu minni hér heldur en geðheilbrigðismál. Hér er það fíkn og geð fyrst og fremst. Það er engin tilviljun að fólk er komið hingað inn. Það er mikið búið að ganga á áður en fólk lendir hér,“ segir Björk.  „Og ég veit ekki hvernig þetta á eftir að vera. Þetta hlýtur að vera bara allt annar veruleiki.“