Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fámál og hlédræg

Mynd: RÚV / RÚV

Fámál og hlédræg

21.04.2017 - 15:16

Höfundar

Þó að Louisa Matthíasdóttir hafi verið fámál og hlédræg var engin hlédrægni í verkum hennar. Í ár er öld liðin frá fæðingu Louisu og af því tilefni verður opnuð sýning á Íslandsmyndum hennar að Kjarvalsstöðum.

Farið var á slóðir Louisu Matthíasdóttur listmálara í Flakki á Rás 1, í fylgd Jóns Proppé listheimspekings og Temmu Bell, dóttur Louisu.

Málverk kemur ekki í stað lífsins

Louisa Matthíasdóttir sagði að málverk kæmi ekki stað lífsins í viðtali við frænda sinn, Matthías Jóhannessen skáld og ritstjóra.  Í sama viðtali segir Matthías að það sé ekki á vísan að róa þegar Louisa er annars vegar, fámál og hlédræg.  Einhvern tíma var sagt að fjölskylduboð, þar sem hún var stödd, hefði tekist einkar vel. Mágur hennar Sverrir Ragnars hefði sagt eitt orð en hún tvö! Temma Bell, dóttir Louisu og Leland Bell, er stödd hér á landi vegna sýningarinnar. Hún segir að henni hafi ekki fundist móðir hennar hafa verið hlédræg gagnvart sér en vissulega hafi hún verið feimin og átt erfitt með að koma sjálfri sér á framfæri. 

Málað utandyra

Louisa og Nína Tryggvadóttur sáust gjarnan úti við að mála á stríðsárunum, báðar í síðbuxum og það var tekið eftir þeim. Þær áttu góðar stundir í Unuhúsi þar sem menningarumræðan blómstraði á þeim árum. Louisa og sömuleiðis Temma dóttir hennar máluðu gjarnan á svölunum í íbúð þeirra á Hverfisgötu.  Þar var útsýnið svipað og í Höfða þar sem Louisa bjó sem barn, Esjan, Akrafjall og Skarðsheiði. Nú er búið að byggja fyrir útsýnið en Temma nýtir sér enn íbúðina á fimmtu hæð.

Einstakur listamaður

Jón Proppé listheimspekingur segir um verk Louisu að hún hafi verið einstakur listamaður. Hann hefur stúderað hana í mörg ár og náði að hitta hana einu sinni aður en hún lést árið 2000. Jón segir frá ævi hennar og störfum í þættinum og einstaklega skemmtilegt var að koma á æskuheimili hennar í Höfða þar sem fjölskyldan bjó í 10 ár.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV