Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fallist á samruna AT&T og Time Warner

28.02.2019 - 10:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Fátt getur komið í veg fyrir samruna fjarskiptafyrirtækisins AT&T og fjölmiðlarisans Time Warner eftir að áfrýjunardómstóll í Washington hafnaði kröfu dómsmálaráðuneytisins um að samruninn standist ekki samkeppnislög. Ráðuneytið ætlar ekki að áfrýja og því getur Ólafur Jóhann Ólafsson, aðstoðarforstjóri Time Warner síðustu ár, hætt en hann ætlaði að láta af störfum þegar af samrunanum yrði.

Samrunaferlinn hefur verið langt en AT&T tekur Time Warner, sem nú heitir Warner Media, yfir og eignast þar með sjónvarpsstöðvarnar HBO og TNT, fréttastöðina CNN og framleiðslufyrirtækið Warner bros. Lögmenn AT&T héldu því hátt á lofti í réttarhöldunum að þetta væri eina leið fyrirtækjanna til að keppa við fjölmiðlarisa á borð við Netflix og Amazon. Fyrst var tilkynnt um tilraun AT&T til að kaupa Warner haustið 2016. Kaupverðið var tæpir 108 milljarðar bandaríkjadala. Samruninn mætti strax mikilli andstöðu víða. Stjórnvöld vísuðu til laga gegn einokun og einkum voru áhyggjur af því að verð til neytenda á vinsælu efni Warner myndi hækka. En andstaðan hefur einnig komið frá æðstu stöðum en Donald Trump, sem er í nöp við CNN-fréttastöðina, vill alls ekki að rekstur hennar styrkist með samrunanum. 

Ólafur Jóhann Ólafsson hefur verið aðstoðarforstjóri Time Warner síðustu ár. Hann greindi frá því fljótlega eftir að kauptilboðið barst að hann myndi láta af störfum þegar samruninn gengi í gegn. Bloomberg-fréttastofan greindi frá því skömmu eftir að tilkynnt var um samrunann að fimm æðstu stjórnendur Time Warner myndu skipta með sér 216 milljóna bandaríkjadala greiðslu, jafnvirði tæpra 26 milljarða íslenskra króna.