Fallegt boð sem býður upp á samviskubit

Mynd:  / 

Fallegt boð sem býður upp á samviskubit

19.02.2019 - 11:21
Listahátíðin Ég býð mig fram verður frumsýnd í Tjarnarbíói 21.febrúar en þar koma fjórtán listamenn úr öllum áttum saman að því að skapa eina stóra upplifun.

Ég býð mig fram er listahátíð yfir eina kvöldstund þar sem fjórtán listamenn, leikarar, tónlistarmenn, myndlistarmenn, dansarar,  skapa hver sitt örverk undir stjórn Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur, sem flytur sjálf öll verkin. Listahátíðin er að sögn Unnar tilraun til að færa listsköpunina nær almenningi með suðupotti hugmynda úr ólíkum áttum. 

Almar Steinn Atlason, myndlistarmaður sem margir ættu að kannast við sem Almar í kassanum, og Álfrún Helga Örnólfsdóttir, sviðslistakona, eru meðal listamannanna sem hafa skapað verk fyrir sýninguna. Þau segja ferlið vera áhugavert enda hvert verk stutt og ólíkt því sem margir eiga að venjast. „Þú leikstýrir bara þínu verki og setur það upp í samstarfi við hana og svo á kvöldinu sjálfu færðu að sjá sýninguna í heild.“

Almar og Álfrún segja ekki neitt ákveðið þema vera fyrir fram ákveðið en allir listamennirnir fengu sömu upplýsingar, ég býð mig fram. „Þetta býður upp á ákveðið hugarástand, ég fékk strax samviskubit áður en ég fékk hugmynd,“ segir Almar um áskorunina sem verkefnið er.

Ásamt Almari og Álfrúnu eru höfundar verkanna Frank Fannar Petersen, Friðgeir Einarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Helgi Björnsson, Ilmur Stefánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Kitty von Sometime, Kristinn Arnar Sigurðsson, Steinar Júlíusson, Ólafur Darri Ólafsson, Ólöf Kristín Helgadóttir og Urður Hákonardóttir. 

Hlustaðu á viðtalið við Almar og Álfrúnu í spilaranum hér fyrir ofan.