Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Falleg, einlæg og rammpólitísk sýning

Mynd:  / 

Falleg, einlæg og rammpólitísk sýning

04.02.2019 - 19:50

Höfundar

Velkomin heim er í senn fallegur og einlægur óður Maríu Thelmu Smáradóttur leikkonu til móður sinnar en um leið rammpólitísk og ögrandi sýning með djúpar samfélagslegar skírskotanir, að mati Karls Ágústs Þorbergssonar, gagnrýnanda Menningarinnar.

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar: 

Sýningin Velkomin heim eftir Maríu Thelmu Smáradóttur og sviðslistahópinn Trigger Warning er sjálfsævisögulegur einleikur þar sem María segir okkur sögu móður sinnar sem fæðist á hrísgjónaakri í Taílandi, elst upp við erfiðar aðstæður og harðræði en finnur ástina og flytur til Íslands. María fléttar eigin uppvaxtarsögu á Íslandi saman við frásögnina af móður sinni. Verkið er ekki einungis persónuleg og einlæg saga Maríu og formæðra hennar heldur varpar hún einnig ljósi á aðstæður innflytjenda innan samfélags sem býður þá velkomna en jaðarsetur um leið.  

Leikur að væntingum og andstæðum

Sýningin hverfist í kringum sögu Völu Rúnar, móður Maríu, en saga hennar er í senn framandi, átakanleg og falleg. Verkið er tiltölulega einfalt í byggingu; María segir okkur sögu móður sinnar en brýtur hana upp með sögum úr eigin æsku. Hún flakkar á milli heima, dettur inn í dramatískar aðstæður móður sinnar á milli þess sem hún talar beint til áhorfenda. Leikið er með andstæður í þessum sögum. Skýr færsla á sér stað milli menningarheima, frá hrísgrjónaökrum Taílands til skafrennings á Íslandi. Andstæðurnar birtast einnig milli móður og dóttur; saga Völu er sértæk og einstök en María leikur sér með að segja frá sinni æsku sem almennri og venjulegri. Þegar líður á sýninguna kemur hins vegar í ljós að þessi saga er kannski ekki eins almenn og María vildi láta vera í upphafi.  

Klisjur, steríótýpur og ímyndir spila einnig stóra rullu í sýningunni. Á meðan áhorfendur ganga í salinn dansar María hefðbundinn taílenskan dans undir dunandi tónlist. Áhorfendur eru þannig strax settir inn í ímynd hins framandi menningarheims. María leikur sér síðan með þessa ímynd í gegnum sýninguna, til að mynda með kostulegu dæmi af hlutverki skeiða í andlegu lífi taílenskra búddista. Sú saga er ýkt og mjög kómísk útgáfa af ímynd okkar Íslendinga af Taílendingum, eins og menningarheimur þeirra sé algjörlega framandi og óskiljanlegur. Þannig leikur María sér með birtingarmynd andstæðuparsins „við og hinir“ og helst þessi leikur í gegnum sýninguna og ágerist þegar á líður, fer úr leik yfir í alvöru. Þessi vinna með klisjurnar ýtir undir pólitískan tón sýningarinnar; hún leikur sér að ímynd okkar og afhjúpar fordóma.  

Mikið mæðir á Maríu í þessari sýningu. Verkið er hennar persónulega saga, hún stendur ein og berskjölduð á sviðinu og hefur ekkert eiginlegt hlutverk til að fela sig á bak við. Umfjöllunarefnið stendur henni nærri og áhorfendur finna að þetta er saga sem brennur á henni. Leikmyndin ýtir að sama skapi undir þessa berskjöldun en hún er mjög mínímalísk og einföld, þrjár hrúgur af hrísgrjónum á svörtum glansandi gólffleti. Einstaka vörpun er beitt til að undirstrika aðstæður. María tekst á við þessar aðstæður af yfirvegun og fagleika. Samtal hennar við áhorfendur er einlægt og náið og hún nær áhorfendum strax inn í tilfinningalegan heim sýningarinnar og heldur þeim þar allt til loka.  

Innsýn í samfélag sem jaðarsetur innflytjendur 

Þó svo að sýningin byggist á persónulegri sögu þá er heimur hennar marglaga og kyrfilega staðsettur í sterkri samfélagslegri ádeilu. Verkið sver sig í ætt hins sjálfsævisögulega performans sem á rætur sínar að rekja til tilrauna femínista og jaðarsettra minnihlutahópa í kringum 1970. Á þeim tíma tóku þessi samfélagshópar formið föstum tökum og settu á svið sinn hversdagslega raunveruleika til þess að varpa ljósi á aðstæður sínar innan samfélags sem jaðarsetti þá.

Velkomin heim fjallar því ekki aðeins um sögu Völu Rúnar og Maríu heldur felur hún í sér miklu víðari samfélagslegri skírskotanir og sýnir hún áhorfendum samfélag sem jaðarsetur innflytjendur á markvissan hátt. Sýningin er þannig um leið saga minnihlutahóps, saga Taílendinga, og í raun innflytjenda allra, sem hafa sest að á Íslandi. Þannig fer sýningin út úr hinu sértæka yfir í hið almenna og verður rammpólitísk. Þegar líður á sýninguna tekst María á við þessa jaðarsetningu beint, meðal annars með því að taka dæmi um þau hlutverk sem henni hafa boðist sem leikkonu en þau hafa mörg hver einkennst af steríótýpískum og fordómafullum ímyndum, hlutverk sem hvítt samfélag býður asískri leikkonu. Síðast þegar undirritaður sá Maríu á sviði var hún einmitt í einu slíku hlutverki, sem þjónustustúlka í Risaeðlunum í Þjóðleikhúsinu.  

Nándin sem felst í verkinu vinnur líka með þessari endurspeglun. María á auðvelt með að fá áhorfendur með sér inn í sögu móður sinnar en beinir athyglinni jafnauðveldlega að áhorfendum sjálfum og afhjúpar forréttindastöðu þeirra. Á einum tímapunkti truflar hún söguna af móður sinni og rifjar upp einstaklega rasískan brandara sem hún hafði heyrt og spyr áhorfendur beint hvort þeir geti ekki botnað hann. Allir gátu það en enginn svaraði.  

Minnihlutahópar og þjóðarsagan

Það er fáheyrt í íslensku sviðslistaumhverfi að sögur minnihlutahópa rati upp á svið, sérstaklega í stóru leikhúsunum, hvað þá að þær séu sagðar af þeim sjálfum þar sem valdið yfir frásögninni liggur í þeirra höndum. Bæði heimur sýninga og áhorfenda eru yfirleitt einstaklega skýr endurspeglun á heimi hinnar hvítu efri millistéttar. Í Velkomin heim er þessi staðreynd beinlínis notuð til að koma samfélagslegri ádeilu verksins til skila, eins og ofannefnt dæmi um brandarann ber með sér. Sú staðreynd að sýningin er í Þjóðleikhúsinu felur einnig í sér pólítískar skírskotanir. Saga þessa jaðarsetta minnihlutahóps á fullt erindi upp á svið Þjóðleikhússins sem hluti af sögu þjóðarinnar sem heildar með það að markmiði að velta því upp hvernig og af hverju við sem þjóð einföldum flókna menningarheima og upplifanir minnihlutahópa í steríótýpur og rasískar klisjur.  

Sýningin Velkomin heim er því ekki aðeins falleg og einlæg frásögn Maríu Thelmu af móður hennar heldur felur hún í sér djúpar samfélagslegar skírskotanir. Hún er í senn einföld og flókin, gamansöm og áræðin, einlæg og átakanleg. 

 

Tengdar fréttir

Leiklist

„Kristallinn er sá að við erum öll mennsk“