Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Falið misrétti í skólakerfinu“

19.06.2015 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Hvernig má ná fram jafnrétti á stjórnmálasviðinu. Þær Una Hildardóttir, talskona Femínistafélags Íslands, og Steinunn Stefánsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands, ræða það í Spegli dagsins.

Magnúsarnir áhrifameiri en konur á sviði fjármála

Enn hefur ýmsum áföngum ekki verið náð. Kona hefur ekki verið landbúnaðarráðherra eða sjávarútvegsráðherra, seðlabankastjóri eða umboðsmaður Alþingis. Kona hefur einu sinni verið forsætisráðherra og tvær konur hafa verið fjármálaráðherra í tvö ár samtals. Rúmlega 30 karlar hafa hins vegar gegnt embættinu í 96 ár samtals og þar af hafa karlar sem heita Magnús gegnt því í tíu ár. 

Föst í viðjum frávikahugsunar

„Staðan eins og hún er núna er þannig að við erum enn þar að það er fyrsta og önnur konan í hinum og þessum embættum. Við höfum haft eina konu sem var forseti en hún hætti líka sem forseti 1996 og það hefur ekki verið kona síðan. Þetta er staðan og síðustu karlavígin eru ófallin enn. Í embættismannaflórunni eru líka mjög mörg vígi sem ekki eru fallin. Í raun er það þannig að við erum föst í hjólförum einhvers konar frávikahugsunar og konur eru ennþá alltaf frávik. Að það sé kona á tilteknum stað er enn frávik frá norminu. Við komumst ekki lengra fyrr en okkur hefur tekist að uppræta þessa hugsun," segir Steinunn. Una telur að jafnrétti náist ekki á sviði stjórnmálanna fyrr en það hefur náðst í samfélaginu. „Það þarf að ná jafnrétti til að það verði eðlilegt að konur séu í þessum stöðum. Þetta er enn svo ofboðslega karllægt og þetta er líka í samfélaginu. Það þarf kannski bara að ná jafnrétti almennilega til að þær nái að komast í þessar stöður líka."

Afleiðingar í stað orsakar

Steinunn tekur undir þetta og segir að staðan endurspegli veruleikann eins og hann er. „Í jafnréttisbaráttunni erum við alltaf að fást við afleiðingar kynjamisréttis. Við höfum verið ofboðslega upptekin af því en við erum ekki að vinna gegn orsökunum. Við erum ekki að vinna að því að uppræta orsakir kynjabilsins í samfélaginu og ég held að eina leiðin til þess sé bara í gegnum upprennandi kynslóðir. Mér finnst sú bylting sem maður sér að er farin af stað hjá þeirri kynslóð sem er nú um tvítugt lofa góðu en ég held við þurfum að gera enn betur. Virkja kennarastéttina í landinu og skólakerfið til þess að hafa mótandi áhrif á uppeldi."

Best að byrja í skólunum

Una er einnig þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að beina sjónum að skólunum. „Eins og þetta er núna fá strákar miklu meiri athygli. Ef strákar standa sig vel fá þeir mikið meira hrós, það er bara eðlilegt að stelpur standi sig vel í grunnskóla og strákar sem eiga erfitt með nám fá mikið meiri stuðning en stelpur sem eiga erfitt með nám. Það kannski endar þannig að strákar sem hafa átt erfitt læra frekar að yfirstíga vandamál og hvernig eigi að díla við það þegar vandamál koma upp þegar þeir eru komnir lengra í lífinu. Þetta er falið kynjamisrétti í grunnskólum sem þarf að rífa upp með rótum. Ég held það sé góður staður til að byrja á."

Netbyltingin áhrifameiri en skipulögð dagskrá

Una segir ungu kynslóðina hafa komið öllum á óvart. Hver byltingin reki aðra. „Núna er búið að vera að halda upp á hundrað ára afmælið, borgin og ríkið hafa fagnað þessu með einhverjum viðburðum en alveg óvart hefur kynslóðin á internetinu eiginlega bara fagnað þessu mikið betur en allt þetta skipulagða. Það er bara bylting á eftir byltingu og í raun alveg óvart sem þetta verður. Ég held þetta sé eitthvað sem má bara láta blómstra. Þetta er kynslóð sem að gerir hlutina," segir hún.

Sem dæmi um þessar netbyltingar má nefna #konurtala, #þöggun, #freethenipple, #6dagsleikinn og #túrvæðingin.

 

Bergmál frá fyrri tíð

Kvenréttindakonur fyrri tíma hafa einnig einbeitt sér að menntun og uppeldi. Guðfinna Ragnarsdóttir sagði í útvarpserindium stöðu kvenna frá árinu 1965:

„Orsökin er næsta augljós ef við förum að leita hennar, hún liggur í uppeldinu. Í uppeldinu mörkum við einstaklinginn. Um leið og barn fæðist í heiminn fæðist það inn í ákveðna stétt. Drengsins bíða ákveðin hlutverk. Fjölbreyttari og þroskavænlegri en sá þröngi bás sem stúlkunni er afmarkaður.“

 

Bríeti Bjarnhéðinsdóttur var einnig tíðrætt um mikilvægi uppeldis og menntunar í sínum ræðum.

„En til þess að dæturnar geti orðið nýtir limir þjóðfélagsins, verða foreldrar og vandamenn þeirra að taka jafnt tillit til vilja þeirra og hæfileika sem sonanna. Þeir verða að hætta að gjöra þennan mikla mun á mey og manni.“

 

Rætur og orsakir

Fyrir 90 árum fjallaði Alþýðublaðið um það að einungis hefði verið sniðið ofan af kúgun kvenna en að enn ætti eftir að komast fyrir rætur hennar. Það kallast á við ummæli Steinunnar, um að taka verði á rót vandans, orsökum en ekki afleiðingum. 

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV