Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Faktorshúsið á Djúpavogi fékk hæsta styrkinn

Faktorshúsið á Djúpavogi fékk hæsta styrkinn

10.04.2018 - 09:20

Höfundar

Hægt verður að innrétta mikið af hinu 170 ára gamla Faktorshúsi á Djúpavogi, eftir að það fékk hæsta styrkinn úr húsafriðunarsjóði. Smiður sem vinnur við að gera upp húsið segir að upprunalega timbrið sé sumt betra en nýjar spýtur út úr búð.

Djúpivogur hefur verið verslunarstaður í meira en 400 ár og elstu húsin sem enn standa eru Langabúð og Faktorshúsið. Þau eru frá tímum danska verslunarfélagsins Ørum & Wulff og var Faktorshúsið byggt 1848 fyrir verslunarstjórann eða faktorinn. Húsið hafði látið verulega á sjá en ytra byrði hefur verið fært til upprunalegs horfs. Húsið er hins vegar hrátt að innan og mikið verk óunnið. Í ár fékkst stór styrkur úr húsfriðunarsjóði. „Við fengum 10 milljóna króna framlag núna og það mun hjálpa okkur við að innrétta miðhæðina í húsinu. Þetta skipti okkur því gríðarlega miklu máli og er stór áfangi í því að vinda verkefninu áfram,“ segir Andrés Skúlason, oddviti á Djúpavogi.

Mikil vinna hefur verið lögð í húsið nú þegar. Sums staðar hefur þurft að skeyta saman gömlu og nýju timbri en mikið af upprunalegum burðarviðum er heilt. „Gamla timbrið er furðulega gott. Allar sperrur og efri hluti hússins er upprunalegur. Þú líkir náttúrlega ekkert gamla timbrinu  við það nýja. Við gerðum að gamni okkar að við töldum árhringina og  fengum 12-20 árhringi á sama bili og einn árhringur á nýja timbrinu. Það er gríðarlega þétt og fínt,“ segir Egill Egilsson, húsasmíðameistari.

Djúpivogur er fyrsta sveitarfélagið sem fær viðurkenningu ráðherra á svokölluðu verndarsvæði í byggð en þá nær verndin til stærra svæðis í þorpinu. Þar er einnig verið að gera upp gömlu kirkjuna frá árinu 1893. „Styrkir úr húsafriðun hafa miðast að mestu leyti við ytra byrði húsanna en núna getum við sótt um innviðina og umhverfi húsanna með því að vera aðili að verndarsvæði í byggð. [Þannig að það gefur aukna möguleika á stuðningi að það sé heildstæð mynd á húsunum.] Það er ekki nóg að hafa húsin ein og sér heldur þarf að skapa þeim fallegar lóðir og reyna að endurheimta þær í eins upprunalegri mynd og möguleiki er á,“ segir Andrés.

Til greina kemur að í Faktorshúsinu á Djúpavogi verði starfsstöðvar og aðstaða fyrir frumkvöðla og fræðimenn. „En þetta er allt saman í mótun. Fyrst viljum við klára húsið og það verða ekki vandræði með að finna því verkefni vegna þess að það er mikið sóst eftir því að fá að vinna í svona umhverfi í svona gömlum húsum.“

Hér má nálgast upplýsingar um úthlutanir úr Húsafriðunarsjóði