Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fáklætt fólk baðar sig í gangalæknum

29.04.2014 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Frá því sól fór að hækka á lofti hafa gangagerðarmenn í Vaðlaheiði nokkrum sinnum þurft að bregða sér í hlutverk sundlaugavarða og reka fáklætt fólk upp úr heita læknum sem rennur úr göngunum.

Frá þessu er greint á facebook síðu ganganna. Þótt vatnið sé afar gruggugt finnst sumum lækurinn spennandi baðstaður og dæmi eru um að heilu hóparnir hafi mætt á staðinn og skellt sér út í á sundfötunum.

Hitastigið er kjörið - eða um fjörutíu gráður - en óvíst er hvaða örverur kunna að leynast í gruggugu vatninu og því er ekki talið heilnæmt að baða sig í því. Þá er lækurinn jafnframt á einkalandi. 

Frá því gangagerðarmenn lentu á heitri vatnsæð í berginu í vetur hefur rúmlega 40 gráðu heitt vatn runnið út úr göngunum. Það rennur í læk niður hlíðarnar uns það steypist í litlum fossi í sjó fram. Margir velta því nú fyrir sér hvort ekki megi nýta þetta heita vatn á einhvern hátt.