Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fáir skilað umsögn um seinkun á klukkunni

16.01.2014 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm af þeim tíu, sem hafa skilað inn umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um seinkun á klukkunni, styðja þingsályktunartillögu Bjartrar framtíðar þess efnis. Samtök atvinnulífsins og Seyðisfjarðarkaupstaður vilja fá sumartíma hér á landi eins og tíðkast í Evrópu.

Þingmenn Bjartrar framtíðar lögðu fram þingsályktunartillögu í nóvember um að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Samkvæmt tillögunni er klukkan rangt skráð miðað við gang sólar og tilgangurinn er að fjölga sólarstundum og auka birtu á morgnana lengur inn í veturinn.

Allsherjar- og menntamálanefnd sendi út umsagnarbeiðnir í desember til 98 sveitarfélaga, einstaklinga og stofnana, en einungis tíu hafa svarað. Fimm styðja tillöguna, Geðhjálp, Landlæknisembættið, SÍBS, Eyjarfjarðarsveit og Hið íslenska svefnrannsóknarfélag. Einn umsagnaraðili er á móti, Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, en hann lagði fram tillögu þegar hann var þingmaður Sjálfstæðisflokks árið 2000 um að flýta klukkunni um eina klukkustund.

Þá hafa yfirlæknir Vinnueftirlitsins og fyrrverandi veðurstofustjóri skilað inn erindum og eru þeir báðir á móti tillögunni. Tveir vilja að sumartími verði tekinn upp eins og annars staðar í Evrópu; Samtök atvinnulífsins og Seyðisfjarðarkaupstaður.