Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fáir sinna málefnum hælisleitenda

08.05.2011 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Einn lögmaður í hálfri stöðu vann að úrskurðum hælisleitenda hjá innanríkisráðuneytinu þar til fyrir viku. Þrír lögfræðingar sinna málaflokknum hjá Útlendingastofnun, með öðrum málum.

Medhi Pour, hælisleitandi frá Íran, er í öryggisvistun á geðdeild eftir að hafa reynt að kveikja í sér í höfuðstöðvum Rauða krossins á föstudag. Verið er að meta hvort hann sé sakhæfur. Sé hann það ekki, er líklegt að það mat vinni með honum því eins og segir í útlendingalögum er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum.


Þeir lögfræðingar sem hafa unnið fyrir hælisleitendur sem fréttastofa RÚV hefur talað við segjast hafa fylgst með nokkrum umbjóðendum sínum sturlast, biðin og óvissan sé þeim óbærileg. Flestir vilja þeir jú bara lifa eðlilegu lífi.


Samkvæmt heimildum fréttastofu boðaði innanríkisráðherra framkvæmdarstjóra Rauða kross Íslands á fund í dag til að ræða atburðarásina á föstudag. Ráðherra vildi þó ekki tjá sig um málið. Hælisleitendum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár og mikið álag er á fólki sem sinnir málum þeirra hér. Ekki eru margir sem sinna einvörðungu málum hælisleitenda, aðeins einn lögfræðingur sinnti alfarið þessum málaflokki í hálfu starfi hjá innanríkisráðuneytinu þar til 1. maí. Þá var staðan gerð að fullu starfi. Þrír lögfræðingar hjá Útlendingastofnun sinna málum hælisleitenda en þeir þurfa einnig að hlaupa í mörg önnur mál. Þetta getur skýrt biðina en Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir málin líka oft ansi umfangsmikil og tímafrekt geti reynst að afla gagna.